Afurðir / Gullkarfi

Gullkarfi

Sebastes norvegicus

Gullkarfinn er einn af algengustu og mikilvægustu nytjafiskum á Íslandsmiðum. Gullkarfi getur orðið 90-100 cm en er sjaldan lengri en 40-50 cm. Algeng stærð er 35-40 cm. Einkenni gullkarfa fyrir utan litinn eru að gaddar eru heldur minni en á djúpkarfa, neðsti gaddur er lítið áberandi og gaddur á neðri skolti að jafnaði lítill. Við Ísland er karfinn allt í kringum landið en hann er mun algengari suðaustan-, sunnan- og vestanlands en undan Norður- og Austurlandi. Karfinn er ýmist miðsævis- eða botnfiskur þar sem hann er oft við botn á daginn en upp í sjó á nóttunni - og veiðist hann niður á 500 m dýpi og stundum dýpra, en best virðist hann kunna við sig á 100-400 m dýpi. Gullkarfinn finnst beggja megin Atlantshafsins og hefur svipaða útbreiðslu og þorskurinn. Karfi getur orðið mjög gamall, líklega einhverra tuga ára. Það er hins vegar mjög erfitt að greina nákvæmlega hvað hann getur orðið gamall. Aldur fiska er greindur á árhringjum í kvörnum sem eru laus bein í höfði þeirra. Þegar fiskar verða mjög gamlir og eru hægvaxta eins og karfarnir þá liggja þessir árhringir mjög þétt saman og erfitt verður að greina þá sundur. Karfinn verður kynþroska við 12 til 15 ára aldur. Fiskurinn er þá um 35 cm langur. Það sem greinir gullkarfa og hans nánustu ættingja frá flestum öðrum beinfiskum er að hann á lifandi afkvæmi og gýtur hann í einu 37-350 þúsund seiðum. Fæða karfans er einkum smákrabbadýr (ljósáta, rauðáta o.fl.), pílormar og fiskseiði þegar hann er ungur (minni en 20 cm) en fullorðnir karfar éta aðallega ljósátu og ýmsa fiska eins og síld, loðnu, þorskfiska auk rækju o.fl.

Samband við söludeild
Sjófryst
  • Heilfrystur H/G
  • Stærðarflokkað
Umbúðir

3x7 kg

Ferskt
  • Flök - með beini og beinlaus
Umbúðir

3 kg, 5 kg og 10 kg

Landfryst
  • Flök - með beini og beinlaus
  • Hnakkar
  • Marningur
Umbúðir

5 kg
Tröllakassar

Næringargildi

Næringargildi í 100 g

  • kj462
  • kcal110
  • prótein18,7
  • fita3,9
  • kolvetni0
  • trefjar0

Fiskimið

Veiðitímabil

Allt árið

Fiskimið

Gullkarfamiðin eru einkum í landgrunnskantinum og mest er sótt og veitt djúpt suðvestur af Reykjanesi, til dæmis í Skerjadýpi. Karfinn er hins vegar lítið sem ekkert veiddur fyrir norðan og austan land.