Fréttir10 jún 2022

Skipting aflans er vandamál

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á landleið og reiknar Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri, með að skipið verði komið til hafnar í Reykjavík seint í kvöld. Heimir segir ekkert út á aflabrögðin að setja en það geti reynst flókið að ná réttri aflasamsetningu m.t.t. til kvóta og þarfa vinnslunnar.

,,Við byrjuðum þessa veiðiferð með því að reyna fyrir okkur á Boðasvæðinu sem er hluti Fjallanna. Þar var lítið að hafa nema gullkarfa og við héldum því norður á Vestfjarðamið,” segir Heimir en hann upplýsir að fyrst stopp hafi verið í Víkurálnum.

,,Það fengum við mjög góðan karfaafla og þar sem sú fisktegund er ekki efst á óskalista okkar nú um stundir þá hífðum við og ákváðum að reyna fyrir okkur á Halanum. Þar hafði komið gott ufsaskot þegar við vorum í landi og mér skilst að það hafi staðið stutt yfir. A.m.k. var engan ufsa að hafa þegar við komum á Halann en við fengum hins vegar góðan þorskafla og eitthvað smávegis af öðrum tegundum,” segir Heimir.

Að sögn Heimis er það farið að standa veiðum á einstaka fisktegundum fyrir þrifum hve mikið er af gullkarfa mjög víða. Menn þurfi að eiga drjúgan karfakvóta til að lenda ekki í vandræðum.

,,Vandinn er að jafna aflann. Við hefðum t.d. viljað vera með miklu meiri ufsaafla núna en ufsinn kemur og fer. Stundum er hægt að veiða bara ufsa en stundum er hann þar sem annar fiskur heldur sig,” segir Heimir Guðbjörnsson.