Fréttir31 júl 2023

Mokýsuveiði á Látragrunni og Flugbrautinni

,,Það er fínasta fiskerí hérna en aflinn er mjög blandaður. Það er gríðarlegt magn af gullkarfa að þvælast fyrir og ýsu má finna á öllum miðum,” segir Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE.

Er rætt var við Arnar Hauk var Örfirisey að veiðum á Halamiðum. Veiðiferðin er rétt rúmlega hálfnuð en um 600 tonnum, miðað við fisk upp úr sjó, var landað í svokallaðri millilöndun í síðustu viku. Fyrri hluta veiðiferðarinnar var mest verið á SV miðum.

,,Við vorum einu sinni sem oftar að leita að ufsa. Það var ekki mikið um hann en við fengum ágætan karfaafla. Eitthvað var líka um ýsu og ufsa á Fjöllunum þar sem vorum lengst af. Við fórum svo norður á Látragrunn og Flugbrautina og fengum þar mokafla af hreinni ýsu. Aflinn fór mest í um tonn á mínútu þannig að það má segja með sanni að vinnslugetan hafi skammtað okkur aflann.”

Arnar Haukur segir að eftir millilöndunina hafi hann ákveðið að byrja veiðarnar á Flugbrautinni.

,,Ýsuveiðin hafði ekkert gefið eftir. Við fórum svo í grunnkantinn og unnum okkur þaðan norður á Hala. Ufsinn hefur komið með en hér á Halanum eru það fyrst og fremst gullkarfinn og ýsan sem ráða ríkjum.

Örfisey fer í slipp eftir þennan túr en síðan í eina veiðiferð til viðbótar áður en skipiðverður selt. Í skipaflota Brims kemur þá grænlenski heilfrystitogarinn Tuukkaqsem keyptur hefur verið. Fær hann nafnið Þerney og einkennisstafina RE 3. Nokkrar breytingar verða á högum Arnars Hauks vegna þessa. Hann verður skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE á móti Árna Gunnólfssyni. Eyþór Atli Scott, sem verið hefur skipstjóri á Vigra, tekur við skipstjórn á Sólborgu RE sem Brim keypti sl. haust. Fyrirhugað er að skipið fari í sína fyrstu veiðiferð fyrir Brim nú um miðjan mánuðinn.