Fréttir28 jún 2022

Lifandi samfélag við sjó, hlýtur fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um framtíð Breiðarinnar á Akranesi

Lifandi samfélag við sjó, hlýtur fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um framtíð Breiðarinnar á Akranesi
  • Blönduð byggð íbúða og atvinnusvæðis – nýbyggingar tengjast endurnýttum eldri húsum
  • Útivistarsvæði meðfram allri ströndinni – hótel og baðlón neðst á Skipaskaga
  • Ein veglegasta samkeppni sinnar tegundar – 24 tillögur bárust frá yfir 50 aðilum

Tillaga frá arkitektastofunni Arkþing/Nordic og Eflu verkfræðistofu hlaut fyrstu verðlaun í veglegri hugmyndasamkeppni um framtíð Breiðarinnar á Akranesi neðst á Skipaskapa. Tillagan ber heitið Lifandi samfélag við sjó og gerir ráð fyrir blandaðri byggð fjölbreyttra íbúða og atvinnusvæðis þar sem nýbyggingar tengjast endurnýttum eldri byggingum. Hugmyndir eru að útivistar- og þjónustusvæðum við ströndina sem eru tengd innbyrðis og við atvinnu- og íbúðasvæði með strand- og göngustígum. Þá eru hugmyndir að hóteli og baðlóni sunnar lega á svæðinu sem bjóða upp á áhugaverða möguleika. Fyrstu verðlaun eru 15 milljónir króna en verðlaunafé alls nemur 25 milljónum króna
Breiðin Þróunarfélag efndi til þessarar samkeppni með að markmiði að byggja upp Breiðina og styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Akranesi til framtíðar. Þetta er ein umfangsmesta samkeppni sinnar tegundar á Íslandi en samtals bárust 24 tillögur frá samtals yfir 50 aðilum og að miklum meirihluta frá alþjóðlegum arkitekta, hönnunar og skipulagsstofum.

Í niðurstöðum dómnefndar segir:
„Lifandi samfélag við sjó er látlaus og skýr tillaga sem leggur til blandaða uppbyggingu á Breiðinni. Atvinnusvæði er byggt upp ofan við Steinsvör og núverandi byggingar eru endurnýttar. Útisvæði við vörina virkar sannfærandi með veitingasölu og annarri starfsemi. Íbúðabyggðin er fjölbreytt en þróa mætti húsgerðir enn frekar með tilliti til þéttleika og skjólmyndunar. Strandstígur liggur umhverfis nýju byggðina og tengist fjölbreyttri uppbyggingu og afþreyingu við sjóinn. Annar stígur liðast í gegnum hverfið frá norðri til suðurs og tengist leiksvæðum, gróðurhúsi og veitingatorgi. Staðsetning hótels og baðlóns sunnar lega á nesinu virkjar það svæði vel og býður upp á spennandi þróunarmöguleika. Styrkur tillögunnar er einfaldleiki með skýru samgönguneti og góðum tengingum við sjóinn. Staðsetning allra lykilþátta er skynsamleg og virðist áreynslulaus. Tillagan er jarðbundin og raunsæ og bíður upp á mikla möguleika til frekar þróunar. Mannvirki við Skarfavör og Steinsvör sem ganga í sjó fram þarf að skoða með tilliti til ágangs sjávar.“

Fulltrúar Arkþings/Nordic og Eflu verkfræðistofu taka við 1.verðlaunum úr hendi Guðmundar Kristjánssonar, formanns dómnefndar

Önnur verðlaun hlaut tillaga án titils frá finnsku arkitektastofunni Muuan með aðstoð frá Arkitektur Verkfræði Hönnun og þriðju verðlaun Breiðin til framtíðan frá hollensku hönnunarstofunni Super World VOF. Þá hlutu tvær tillögur viðurkenningar en þær þóttu áhugaverðar. Önnur tillagan var  Ábreiðan  frá íslensku arkitektastofunni HJARK og portúgölsku hönnunarstofunni Sastudio en hin kallast Akranes – Atlandshafs-rannsóknarmiðstöð fyrir endurnýjun menningar en höfundar hennar eru  danska arkitektastofan Atelier for Byers Rum í samvinnu við DSA ARK STUDIO í Danmörku og Dögg Design á Íslandi.

Dómnefnd skipuðu þau Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, formaður, Inga Jóna Friðgeirsdóttir, stjórnarmaður í Breiðinni, Páll Hjaltason, arkitekt, FAÍ, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, Helgi Bollason Thoroddsen, arkitekt, FAÍ, Ólafur Melsted, landslagsarkitekt, FÍLA og Heba Hertervig, arkitekt, FAÍ.

Verðlaunatillögur ásamt yfirliti yfir allar tillögurnar eru til sýnis í Hafbjargarhúsnæði Brims neðst á Breiðinni. Sýningin verður opin almenningi án endurgjalds í sumar.

Breið þróunarfélag er hlutafélag í eigu Brims hf. og Akraneskaupstaðar. Framkvæmdastjóri félagsins er Valdís Fjölnisdóttir.

Frekari upplýsingar veitir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi í síma 860 7701 og Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastóri Breiðar í síma 694 3388.