gobackTil baka
Fjárfestar16 nóv 2023

Uppgjör Brims á þriðja ársfjórðungi

Starfsemin á 3F2023

Makrílveiðar félagsins hófust í lok júní og gengu vel. Skipin Venus, Víkingur og Svanur voru með samstarf um veiðarnar þar sem aflanum var dælt í eitt skipanna þangað til það náði settum afla. Skipin veiddu ríflega 26 þúsund tonn af makríl sem landað var á Vopnafirði. Makrílveiðum lauk 31. ágúst og hófust þá síldveiðar á norsk-íslenskri síld og stóðu þær veiðar fram í október.

Bolfiskveiðar og -vinnsla gengu vel. Afli bolfiskskipa félagsins var 13 þúsund tonn á þriðja ársfjórðungi en var um 11 þúsund tonn árið áður. Frystitogarinn Sólborg RE-27 var tekinn í notkun um miðjan ágúst eftir gagngerar endurbætur. Örfirisey RE-4 og Viðey RE-50 stoppuðu vegna viðhaldsverkefna á tímabilinu.

Þann 24. september gerði Brim samkomulag um kaup á 10,83% hlut Sjávarsýnar ehf. í Iceland Seafood International hf.

Helstu atriði úr fjárhagsuppgjöri 3F 2023

  • Vörusala var 113 m€ á fjórðungnum samanborið við 112 m€ á þriðja fjórðungi 2022
  • Hagnaður var 25 m€ á fjórðungnum samanborið við 23 m€ á þriðja fjórðungi 2022
  • EBITDA var 33 m€ og EBITDA hlutfall 29,5%
  • Eignir hafa hækkað um 35 m€ frá áramótum og voru 978 m€ í lok tímabilsins
  • Eigið fé þann 30. september 2023 var 467 m€ og eignfjárhlutfall 47,8%

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Afkoma fjórðungsins er sambærileg því sem var í fyrra og sýnir hve mikilvægt er að vera með fjölbreyttan rekstur. Það er óvissa í Evrópu núna vegna stríðs og verðbólgu. Erfitt er að spá um hvað gerist á okkar afurðamörkuðum á næstu mánuðum en það styrkir Brim að vera með margar tegundir afurða eins og sést á þessum ársfjórðungi þar sem verð á lýsi og mjöli voru góð. Sterkt og gott sölunet styrkir alla þætti starfseminnar á tímum eins og núna. Efnahagur félagsins er traustur og eiginfjárstaðan góð. En það er líka óvissa á Íslandi en óvissuna má minnka ef atvinnulífið, bæði atvinnurekendur og verkalýðsfélög, hefja strax málefnalegt og skynsamlegt samtal við stjórnvöld um hvernig við ætlum að ná niður verðbólgunni.“

Rekstur
Seldar vörur námu á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 335 m€ samanborið við 354 m€ árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 79 m€ eða 23,5% af rekstrartekjum, en var 102 m€ eða 28,9% árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjáreignatekjur námu 10,2 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 en voru 1,9 m€ á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir tekjuskatt á fyrstu níu mánuðum ársins nam 63,9 m€, samanborið við 90,2 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins 2022. Tekjuskattur fyrir sama tímabil nam 9,8 m€, en var 18,1 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 54,1 m€ en var 72,1 m€ árið áður.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 978 m€ í lok 3F 2023. Þar af voru fastafjármunir 807 m€ og veltufjármunir 171 m€. Hækkun á fastafjármunum skýrist af kaupum Brims á 50% hlut í Polar Seafood Denmark A/S og kaupum á frystitogaranum Tuukkaq. Fjárhagsstaða félagins er áfram sterk og nam eigið fé 467 m€ og var eiginfjárhlutfall 47,8%, en var 48,0% í lok árs 2022. Heildarskuldir félagsins voru 511 m€ í lok fjórðungsins og hækkuðu um 20 m€ frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 26 m€ á fyrstu níu mánuðum ársins, en var 64 m€ á sama tíma árið 2022. Fjárfestingar-hreyfingar voru neikvæðar um 148 m€ og fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um tæpar 21 m€. Handbært fé lækkaði því um 142 m€ og var rúmar 19 m€ í lok tímabilsins.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrstu níu mánuði árins 2023 (1 evra = 149,03 ísk) voru tekjur 50,0 ma. króna, EBITDA 11,7 ma. og hagnaður 8,1 ma. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. september 2023 (1 evra = 144,9 ísk) voru eignir samtals 141,7 milljarðar króna, skuldir 74,0 milljarðar og eigið fé 67,7 milljarðar.

Hluthafar
Lokaverð hlutabréfa 30. september 2023 var 73,6 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 142 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 1.901.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 16. nóvember 2023. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards).

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Fjórði ársfjórðungur                22. febrúar 2024

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi