Fréttir27 júl 2022

Fínn afli í veiðiferðinni

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú í höfn í Reykjavík eftir velheppnaða veiðiferð á Vestfjarðamið. Reyndar brotnaði stýristjakkur í skipinu, sem skemmdi sjálfstýringuna, en nýr varahlutur fékkst á Ísafirði þannig að veiðiferðin tafðist aðeins um 20 tíma vegna þessarar óvæntu uppákomu.


,,Við fórum beint norður á Halamið og hófum veiðar þar. Yfirleitt er stór og góður karfi á Halanum á þessum árstíma og það brást ekki núna. Annars var töluvert um ufsa. Það má segja að veiðin hafi staðið sem hæst þegar stýristjakkurinn brotnaði og því var ekki um annað að ræða en að handstýra togaranum til Ísafjarðar,” segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri, en hann er ekki frá því að hann hafi verið betri í handstýringu hér áður fyrr.


,,Efir viðgerðina fórum við beint aftur á Halann. Svo lá leiðin suður á Látragrunn. Þar var mjög góður þorskur en einnig töluvert af ýsu. Þegar ýsuaflinn fór að verða of mikill þá brugðum við á það ráð að fara norður í grunnkantinn út af Patreksfirði. Þar var töluvert af þorski en við fengum einnig dálítið af kola,” segir Heimir en hann upplýsir að heildaraflinn í veiðiferðinni hafi verið um 165 tonn af fiski upp úr sjó.


Helga María kom inn árdegis á mánudag en skipið á að fara aftur til veiða á morgun.