BRIM hlýtur Hvatningarverðlaun fyrir sjálfbærni

BRIM hlaut Hvatningarverðlaun Creditinfo og Festu - miðstöðvar um sjálfbærni, fyrir framúrskarandi framlag til sjálfbærrar þróunar og þá einkum fyrir metnaðarfulla endurfjármögnun að fjárhæð 33 milljarða króna. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, tók við verðlaununum við athöfn þegar birtur var listi yfir Fyrirmyndar fyrirtæki á Íslandi árið 2025. Í ítarlegri frétt um verðlaunin á Vísir.is kemur fram að lánasamningur sem Brim gerði við þrjár alþjóðlegar fjármálastofnanir, Rabobank, Nordea og DNB, hafi ekki aðeins verið stór í sniðum heldur einnig byltingarkenndur í framkvæmd þar sem vextir ráðist meðal annars af mælanlegum árangri í umhverfismálum.
Sjálfbærni og fjárhagslegur árangur haldast í hendur - Vísir
„Markmið okkar er að skapa verðmæti í sátt við samfélagið og umhverfið og við lítum á þessa viðurkenningu sem merki um að okkur hafi tekist það að minnsta kosti sæmilega vel,“ segir Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brim í viðtali við Vísir.is. „Gerð lánasamningsins var mjög áhugavert verkefni og í raun einstakt í sniðum. Við höfðum ekki áður unnið með svona sjálfbærnihlekk í lánaviðskiptum og það sama gilti um bankana í samhengi lánasamninga sjávarútvegsfyrirtækja,“ segir Sveinn. „Í stað hefðbundins lánasamnings eru hér innbyggðir hvatar sem hvetja til árangurs í sjálfbærni. Ef við náum ákveðnum markmiðum, eins og aukinni verðmætasköpun eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, bætast vaxtakjörin.“
Myndin er frá afhendingu Hvatningarverðlauna Creditinfo og Festu - miðstöðvar um sjálfbærni, til Brims fyrir framúrskarandi framlag til sjálfbærrar þróunar. Frá vinstri eru Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Creditinfo, Erla Ósk Ásgeirsdóttir formaður dómnefndar, Sveinn Margeirsson framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá Brim, Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims og Inga Jóna Friðgeirsdóttir fjármálastjóri Brims.Mynd/Anton Brink.