icon

Árs- og sjálfbærniskýrsla Brims 2024

Fréttir19 nóv 2025

Brim fagnaði degi íslenskrar tungu með leikjum í sjávarmáli

Brim fagnaði degi íslenskrar tungu með leikjum í sjávarmáli

Í tilefni dags íslenskrar tungu fór Brim af stað með auglýsingaherferð sem minnir á hvernig íslenskan er samofin samfélagi okkar og daglegu starfi með öllum sínum lit og blæbrigðum. Fólk á öllum aldri er hvatt til að taka þátt og leika sér í sjávarmálinu en á vefsíðunni sjavarmal.is er hægt að spila aðgengilega og skemmtilega leiki sem snúast um orð tengd hafi, fiski og sjómennsku.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.:

„Við í Brimi viljum stuðla að framförum á Íslandi á fleiri sviðum en efnahagslegum. Sköpun verðmæta og vel launaðra starfa skiptir miklu máli en fleira kemur til. Til að vinna að framförum þurfum við sem samfélag að tala saman og ná sameiginlegum skilningi á viðfangsefnum og lausnum. Til þess þurfum við íslenska tungu. Því betra vald sem við höfum á tungunni, því betra verkfæri er hún til samskipta og til að leiða samtal um málefni sem okkur öll varða. Þá skilgreinir tungan okkur sem þjóð og hún geymir sögur okkar og menningararf. Þess vegna er Brim staðfastur málsvari íslenskrar tungu.“

Herferðin, sem unnin er í samstarfi við auglýsingastofuna Kontor, sameinar leikgleði, húmor og fræðslu til að vekja áhuga ungs fólks á ríkulegum orðaforða tengdum hafinu – og minna á djúp tengsl þjóðarinnar við sjóinn.

Herferðin byggir á þeirri hugmynd að tungumálið og hafið séu órjúfanlega tengd, bæði sem uppspretta lífs, viðurværis og sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Með frumlegum og sjónrænum efnistökum færist íslenskan nær ungu fólki og sýnir hvernig jafnvel gömul orð geta kveikt ný ljós í stafrænum heimi dagsins í dag.

Brim er hollvinur íslenskrar tungu og bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags. Brim vill leggja sitt af mörkum til að varðveita og efla tungumálið með skapandi og jákvæðum hætti.