Stefnt að kolefnishlutleysi í Vopnafjarðarhreppi
Árs- og samfélagsskýrsla Brims verður gefin út á næstu vikum. Í skýrslunni er áhrifum Brims á umhverfi og samfélag gerð skil. Samstarf við íslenska ríkið og sveitarfélög er mikilvægt í því samhengi. Á dögunum undirrituðu Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps og Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, samstarfsyfirlýsingu sem kveður á um að umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Vopnafjarðarhreppur og Brim hf. hrindi í framkvæmd aðgerðum til að stuðla að kolefnishlutleysi í sveitarfélaginu.
Markmið stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og markmið um kolefnishlutleysi og full orkuskipti kallar á skýra sýn og nýja nálgun sem mun byggja á markmiðum fyrir einstaka geira atvinnulífsins, aukna áherslu á loftslagshagstjórn og forgangsröðun í þágu loftslagsmarkmiða á öllum sviðum samfélagsins.
Til að þessum markmiðum verði náð er mikilvægt er að tryggja samstarf ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Í því samstarfi þarf að leggja áherslu á aðgerðir til þessa að hraða orkuskiptum, uppbyggingu hleðsluinnviða fyrir þungaflutninga, landtengingu skipa, orkunýtingu og möguleika til aukinnar matvælaframleiðslu, kolefnisbindingar og nýtingu á lífrænum úrgangi.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:„Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og til að þau náist þurfa allir að leggja sitt af mörkum. Ég fagna því frumkvæði sveitarfélagsins og Brims að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem stuðla að kolefnishlutleysi.“
Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps:„Vopnafjarðahreppur fagnar þessu samstarfi við Brim og ráðuneytið varðandi aðgerðir til að stuðla að kolefnishlutleysi í Vopnafjarðarhreppi og hlakkar til samstarfsins.“
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims:„Til að ná markmiðum í umhverfis- og loftlagsmálum er skynsamlegt að hafa samvinnu og þess vegna fagnar Brim þessu samstarfi við stjórnvöld og Vopnfirðinga. Það hraðar vonandi nauðsynlegum aðgerðum og færir alla nær sameiginlegum markmiðum. Skynsöm nýting auðlinda leggur grunninn að starfsemi Brim og félagið mun leggja sitt af mörkum til ábyrgrar auðlindanýtingar og skynsamlegra loftslagsaðgerða. Brim hefur sett skýr umhverfismarkmið og tekið saman kolefnisspor félagsins frá árinu 2015 og þá birtir félagið árlega umhverfisuppgjör.“