Fréttir24 jan 2023

Hafís kominn yfir Vestfjarðamið

Hafís hamlar nú veiðum allt frá Þverálshorni og Halanum suður á Barðagrunn. Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, segir hafísinn ná alveg upp að 12 mílum frá landi og þó þetta sé mest þunnur lagnaðarís þá séu ísspangirnar á milli þykkar. Þær komi í veg fyrir togveiðar.

,,Við fórum frá Reykjavík á föstudagkvöld. Það var vitað af góðum aflabrögðum í Þverál og Heiðardalnum en aflinn var dottinn niður þegar við komum. Við héldum okkur þó í blönduðum afla í Þverálnum sem var mest ýsa en einnig þorskur. Eitthvað fengum við líka af ufsa og karfa. Þegar hafísinn kom sáum við okkar óvænna og færðum okkur sunnar. Við vorum á Kögurgrunni þar sem var ýsuafli. En ýsan í aflanum jókst jafnt og þétt og við urðum því að færa okkur, segir Heimir en er rætt var við hann var Helga María stödd á vesturhorni Víkuráls.

,,Hér höfum við fundið stóran og góðan þorsk, 4,5 til rúmlega 5,0 kíló, en þessi þorskur er greinilega að koma frá Dohrnbankanum og er á leið inn í Breiðafjörð og Faxaflóa til hrygningar. Það er ekki mikið af hrognum í þessum fiski og það bendir til að hann eigi eftir nokkrar vikur fram að hygningu.”

Heimir segir að tvö síðustu hol hafi skilað 20 tonnum af þorski. Engin önnur skip eru á svæðinu ef Hrafn Sveinbjarnarson GK er undanskilinn en það skip er á austurhorni Víkuráls. Heimir segir að fréttir berist þaðan um aukna ýsugengd.

,,Við erum komnir með um 65 tonna afla. Markmiðið er að bæta við þá tölu. Það er tími til hádegis á morgun en við eigum að vera komnir í höfn í Reykjavík snemma á fimmtudagsmorgun. Ég býst ekki við skemmtisiglingu heim. Það er spáð leiðinlegri sunnan- eða suðvestanátt og það verður slæmt í sjóinn á heimleiðinni,” segir Heimir Guðbjörnsson.