FréttirSkrá á póstlista

15.01.2013

Vænn og góður þorskur á Vestfjarðamiðum

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK er nú á suðurleið eftir velheppnaða veiðiferð á Vestfjarðamið og er skipið væntanlegt til heimahafnar næstu nótt. Aflinn í veiðiferðinni er um 120 tonn og þar af var 70 tonnum landað á Ísafirði sl. sunnudag. Uppistaða aflans er þorskur.

,,Það hefur verið mjög góð þorskveiði á Vestfjarðamiðum, jafnt grunnt sem djúpt, og þetta er afbraðsfiskur frá þremur kílóum og upp í tíu kíló,“ segir Magnús Kristjánsson, fyrsti stýrimaður á Sturlaugi í samtali við heimasíðu HB Granda.

Uppistaðan í bolfiskkvóta HB Granda er í karfa og ufsa en Magnús segir að í þetta sinn hafi áherslan verið lögð á að ná í þorskskammtinn fyrir fiskiðjuver félagsins á Akranesi.

,,Það var lítilsháttar nudd í ufsa og ýsu í þessum túr og við urðum varir við karfa, s.s. á Halanum, en þetta er ekki rétti árstíminn fyrir karfaveiði á því veiðisvæði,“ segir Magnús Kristjánsson. Að hans sögn hófst veiðiferðin 9. janúar sl. og úthaldið að þessu sinni verður því rétt tæp vika.

Nýjustu fréttir

31.12.2019

Gleðilegt ár

24.12.2019

Gleðileg jól

Allar fréttir