FréttirSkrá á póstlista

16.02.2010

test frétt

Hátt í 250 manns komu í móttöku HB Granda fyrir starfsfólk og gesti, sem haldin var í Víkinni, sjóminjasafninu á Grandagarði sl. laugardag.

Ákveðið var að boða til þessarar samkomu í tilefni af góðum árangri í landvinnslunni hjá félaginu á síðasta ári og því, að nú sér fyrir endann á ýmsum stórum verkefnum, sem unnið hefur verið að um hríð. Mikil endurnýjun og endurbætur hafa átt sér stað á fiskiðjuverunum í Reykjavík og á Akranesi, en þar ber hæst nýja flæðilínu og nýja umbúðageymslu í Reykjavík.  Þá er nýlokið úttekt á IFS gæðakerfinu, sem stuðst er við í fiskvinnslunni á báðum stöðum.  Síðast en ekki síst má nefna haldið var upp á útskrift 32 starfsmanna frá alls 9 þjóðlöndum, sem tekið hafa þátt í námskeiðum Starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar.


Að sögn Torfa Þ. Þorsteinssonar, forstöðumanns landvinnslu HB Granda, var vel við hæfi að vera í Víkinni.


„Safnið er að hluta til í húsakynnum sem Bæjarútgerð Reykjavíkur, síðar Grandi hf., var með starfsemi í og HB Grandi er einn af helstu bakhjörlum og styrktaraðilum safnsins. Umgjörðin var einstaklega skemmtileg fyrir móttökuna og síðan gafst okkar fólki og öðrum gestur kostur á að skoða safnið undir leiðsögn Eiríks P. Jörundssonar, forstöðumanns,“ segir Torfi en þess má geta að auk starfsfólks HB Granda í Reykjavík og á Akranesi var ýmsum iðnaðarmönnum, sem unnið hafa að breytingum og endurbótum fyrir félagið, boðið í móttökuna. Þar á meðal var fríður hópur frá Marel sem á veg og vanda af þróun og uppsetningu nýju flæðilínunnar í Norðurgarði.


Auk veitinga var boðið upp á skemmtiatriði í móttökunni í Víkinni og var það mat manna að hápunkturinn hafi verið þegar HB Granda hljómsveitin steig á stökk og flutti nokkur lög við góðar undirtektir veislugesta. Í hljómsveitinni, sem er nýstofnuð, eru gítarleikarinn Eggert Benedikt Guðmundsson, bassaleikarinn Magnús Ísleifsson, trommuleikarinn Þórir Roff, sem reyndar er lánsmaður, og söngvararnir Nelia Baldelovar, Herminigilda Todtod, Ronnel Silao og Reynaldo Renegado. Auk HB Granda hljómsveitarinnar mættu Marelmenn með sína eigin hljómsveit sem flutti sömuleiðis nokkur lög.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir