FréttirSkrá á póstlista

06.12.2011

Loðnuleit miðar hægt

Lítið hefur fundist af loðnu í veiðanlegu magni út af Vestfjörðum eftir að áhöfn rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar varð vör við álitlegar torfur af stórri og góðri loðnu á þessum slóðum í gærdag. Um fimm til sex skip eru nú á miðunum en þar sem veðurspáin er slæm má reikna með því að skipin verði að gera hlé á leitinni eftir kvöldið í kvöld.

Meðal skipanna, sem verið hafa við loðnuleit, eru skip HB Granda, Ingunn AK og Faxi RE, en þau létu úr höfn á Vopnafirði sl. sunnudag. Að sögn Jóhanns Arnar Jónbjörnssonar, sem er 1. stýrimaður á Ingunni í veiðiferðinni, eru skipin nú stödd norðvestur af Hornbjargi.

,,Það vakti vonir þegar við heyrðum að Árni Friðriksson hefði í gær fundið góða loðnu í veiðanlegu magni en þótt það hafi orðið vart við loðnu í nótt, þá var hún mjög dreifð og á miklu dýpi. Grænlenska skipið Erika náði reyndar 50 til 60 tonna kasti í gær, fljótlega eftir að fréttirnar frá Árna Friðrikssyni spurðust út, en það bilaði eitthvað hjá þeim og skipið varð því að halda til hafnar,“ segir Jóhann Örn. Að hans sögn eru skipin nú öll að leita á svipuðum slóðum.


,,Spáin er slæm og við höfum tíma fram á kvöld eða í mesta lagi fram á nóttina áður en það brælir að nýju. Ef spáin gengur eftir þá verður ekkert veiðiveður hér eftir þann tíma fyrr en um eða eftir næstu helgi.“

Nýjustu fréttir

Allar fréttir