FréttirSkrá á póstlista

17.12.2010

Hlé á loðnuveiðum og -vinnslu fram yfir áramót

Það sem af er loðnuvertíðinni hafa um 3.300 tonn af loðnu borist til Vopnafjarðar. Þar af voru um 700 tonn fyrir manneldismarkaði en um 2.600 tonn hafa farið til framleiðslu á fiskmjöli og -lýsi. Hlé hefur nú verið gert á veiðum og vinnslu en stefnt er að því að þráðurinn verði tekinn upp að nýju eftir áramótin.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði, fóru Ingunn AK og Faxi RE tvær veiðiferðir hvort skip í þessum mánuði. Ingunn kom til Vopnafjarðar með um 1.340 tonna afla í byrjun vikunnar og var lokið við að vinna úr honum sl. miðvikudagsmorgun. Um 370 tonn af stórri og nánast átulausri fóru til frystingar en annað í bræðslu. Faxi kom í kjölfarið með tæplega 800 tonn af loðnu og þar af fóru rúmlega 140 tonn til frystingar.


Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarveiðisviðs HB Granda, er stefnt að framhaldi loðnuveiða fljótlega eftir áramótin en framhaldið ræðst síðan af því hvort aukið verður við loðnukvótann eða ekki. Skipstjórar loðnuskipanna segja að mikið sé af loðnu fyrir norðan landið en það skýrist ekki fyrr en eftir loðnuleiðangur Hafrannsóknastofnunar í byrjun næsta árs hvort hægt verði að auka við kvótann. Á síðustu vertíð var veiðum skipa HB Granda hagað þannig að allur aflinn var nýttur til hrognatöku og frystingar á loðnuhrognum með það að markmiði að hámarka virði framleiðslunnar. Hið sama er haft að leiðarljósi nú og verður þess gætt að geyma nægan kvóta til hrognatöku.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir