FréttirSkrá á póstlista

24.04.2013

,,Helsta fagsýning á sviði sjávarútvegsins“

,,Sýningin hér í Brussel stendur að vanda undir nafni sem helsta fagsýning á sviði sjávarútvegs sem haldin er í heiminum í dag. Hér eru samankomnir allir þeir sem máli skipta á þessum vettvangi. Sjávarafurðir eru því miður takmörkuð auðlind og því skiptir meiru að rækta þau traustu viðskiptasambönd, sem búið er að byggja upp í áranna rás, en að leggja allt kapp á að afla nýrra.“

Þetta segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda, sem nú stendur vaktina á sjávarútvegssýningunni European Seafood Exposition í Brussel ásamt 20 öðrum starfsmönnum félagsins. Þetta er í níunda skiptið á jafn mörgum árum sem HB Grandi tekur þátt í sýningunni og kynnir afurðir sínar í eigin nafni og Svavar hefur leitt markaðsdeildina öll þau ár.

,,Mér sýnist aðsóknin vera mjög svipuð og í fyrra, eða mjög góð. Fljótt á litið þá sjást ekki miklar breytingar milli ára en ef eitthvað er þá eru fulltrúar Austur-Evrópuríkja meira áberandi en áður,“ segir Svavar.

Líkt og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni þá var í gær skrifað undir samning á sýningunni í Brussel á milli HB Granda og Völku ehf. um kaup á röntgenstýrðri beinaskurðarvél til skurðar á þorskflökum fyrir fiskiðjuver félagsins á Akranesi. Þetta er fyrsta vél sinnar tegundar í heiminum og var hún sýnd í fyrsta skipti opinberlega á sýningunni. HB Grandi tók þátt í að þróa fyrstu beinaskurðarvélina með Völku og hefur sú vél verið í notkun í fiskiðjuveri HB Granda í Reykjavík frá því í september í fyrra. Sú vél er notuð til að skera beingarð úr karfaflökum auk þess sem hnakkabitar eru skornir sjálfvirkt í vélinni.

Að sögn Svavars fylgjast viðskiptavinir HB Granda glöggt með fréttum eins og þessum.


,,Fjárfestingar í nýrri tækni, sem virkar og er að skila sér í bættri nýtingu og framþróun, vekja alltaf athygli. Þær sýna að HB Grandi leggur áherslu á að mæta kröfum markaðarins og þörfum viðskiptavina. Hvort tveggja auðveldar okkur í markaðsdeildinni að sinna okkar starfi,“ segir Svavar Svavarsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir