FréttirSkrá á póstlista

29.05.2009

Ágætur gangur í síldveiðum og –vinnslu

Síldveiðar skipa HB Granda hafa gengið ágætlega síðustu sólarhringa eftir frekar rólega byrjun. Lundey NS kom til Vopnafjarðar í fyrrakvöld með um 700 tonna afla en áður hafði Faxi RE komið þangað með um 350 tonna afla.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, er Faxi nú á miðunum og í hádeginu var veiðum hætt og stefnan tekin til Vopnafjarðar með um 650 tonna afla. Síldaraflinn hefur fram að þessu fengist djúpt norðaustur af Langanesi en þó vel innan íslensku lögsögumarkanna.

Frysting á síld hefur gengið vel í fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði og alls tókst að frysta um 130 tonn af samflökum (flöpsum) úr farmi Faxa sem landað var sl. þriðjudag. Vinnsla og frysting á afla Lundeyjar hófst sl. nótt og gengur hún vel.

Þriðja uppsjávarveiðiskip félagsins, Ingunn AK, er nú í höfn á Akranesi þar sem unnið er að vélarupptekt. Að sögn Ingimundar er stefnt að því að skipið fari til veiða fljótlega eftir sjómannadaginn sem haldinn verður hátíðlegur annan sunnudag.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir