FréttirSkrá á póstlista

30.03.2010

Beðið eftir því að kolmunninn gangi norður á ,,gráa svæðið“

Uppsjávarveiðiskip HB Granda eru nú í höfn en kolmunnaveiðar hafa legið niðri upp á síðkastið. Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipanna, er þeim möguleika haldið opnum að senda skipin til veiða að nýju fyrir páska en það verður því aðeins gert ef fréttir berast af veiði á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu Írlands og Skotlands.

,,Kolmunninn gekk inn í írsku og skosku lögsöguna í síðustu viku og síðan þá hefur lítil sem engin veiði verið á alþjóðlega hafsvæðinu. Það er því beðið eftir því að kolmunninn gangi norður á hið svokallaða gráa svæði sunnan við færeysku lögsöguna. Við vorum að vona að það myndi gerast fyrir páskana en það hefur ekki gerst enn. Það eru rússnesk skip á svæðinu og við höfum verið að reyna að hlera hvort þau hafi fengið einhvern afla. Berist engar fréttir af aflabrögðum fyrir páska þá fara okkar skip ekki til veiða fyrr en eftir páska eða um miðja næstu viku,“ segir Ingimundur.

Áður en kolmunnaveiðin á alþjóðlega hafsvæðinu datt niður náðu öll þrjú skip HB Granda einni veiðiferð hvert. Ingunn AK var með um 1.900 tonna afla, Faxi RE var með um 1.350 tonn og Lundey NS var með rúmlega 700 tonn. Lundey var á miðunum í aftakaveðri þegar kolmunninn gekk vestur í írsku lögsöguna og fyrir vikið varð aflinn ekki meiri en raun ber vitni.


Úthlutaður kolmunnakvóti skipa HB Granda á þessu ári er rúmlega 18.000 tonn. Heimilt er að flytja 10% kvótans á milli ára og var sá réttur nýttur í fyrra. Leyfilegt aflamagn skipanna er því um 17.000 tonn á árinu en heimilt er að veiða allt að 1.800 tonn til viðbótar samkvæmt 10% reglunni ef áhugi er fyrir hendi.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir