FréttirSkrá á póstlista

07.05.2013

Þúfa – verk Ólafar Nordal varð fyrir valinu

Ólöf Nordal myndlistarmaður varð hlutskörpust í hugmyndasamkeppni um gerð listaverks við suðausturgafl nýrrar frystigeymslu HB Granda sem risin er vestan innsiglingarinnar að gömlu höfninni í Reykjavík. Fjórir listamenn voru valdir, að loknu forvali,  til að útfæra tillögur sínar en auk Ólafar voru það Olga Bergmann, Rúna Gísladóttir og Þór Vigfússon.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sem kynnti niðurstöður dómnefndar í húsakynnum félagsins í dag en auk Vilhjálms áttu sæti í nefndinni Torfi Þorsteinsson, framleiðslustjóri HB Granda, Anna Margrét Hauksdóttir arkitekt, sem teiknaði nýju frystigeymsluna, og tveir fulltrúar Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), þau Guðrún Vera Hjartardóttir og Ingi Rafn. Hjálmar Sveinsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, var dómnefndinni til ráðuneytis og Guðný Margrét Magnúsdóttir starfaði einnig með nefndinni sem trúnaðarmaður SÍM.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna segir:


,,Tillagan snýst um að byggður verði upp grasivaxinn hóll við norðausturvegg við nýju frystigeymsluna á Norðurgarði. Hann er 8 metra hár og 26 metrar í þvermál. Efst á hólnum er lítill hjallur og höfundur reiknar með að þar verði þurrkaður fiskur. Hjallurinn verður lýstur upp eftir myrkur. Stök þrep verða greipt í hólinn sem mynda spírallaga stíg upp á hólinn.


Höfundurinn segir að þeir sem „klífa fjallið“ muni njóta útsýnisins og að hjallurinn „marki stað til íhugunar“. Höfundur segir einnig að leitast verði við að „verkið búi yfir látleysi og hógværð á áreynslulausan hátt, en það á líka að búa yfir lúmskum húmor og góðlátlegri ádeilu á kapphlaup um veraldleg gæði og íburð og með léttri áminningu um hvaðan við komum.“


Þúfan á að renna saman við og vera hluti af útvistarsvæðinu austan kæligeymslunnar.

Dómnefnd álítur að hugmyndin á bak við verkið sé sterk og útfærslan afar góð. Verkið Þúfa hefur djúpar rætur í íslenskri menningu og samsvaranir í íslensku landslagi auk þess sem það felur í sér alþjóðleg minni um íhugunar- og tilbeiðslustaði, eins og höfundur bendir á. Þetta er frumlegt og óvænt verk. Þúfan á áreiðanlega eftir að vekja mikla athygli gesta og gangandi og verða eitt helsta kennileiti gömlu hafnarinnar. Afstöðumyndir sýna að Þúfan mun njóta sín afar vel frá Austurbakka hafnarinnar, Miðbakka, Suðurbugt og Vesturbugt. Einnig má nefna að þúfan felur í sér skemmtilega skírskotun til frumlegrar tillögu franska arkitektsins Jean Nouvel að tónlistarhúsi við höfnina.


Við útfærslu á verkinu er náin samvinna höfundarins, arkitekts kæligeymslunnar og Faxaflóahafna nauðsynleg. Þúfa verður í eigu HB Granda en hún verður á fyrirhuguðu útvistarsvæði í eigu og umsjón Faxaflóahafna.“


 Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar er reiknað með því að framkvæmdir við gerð þessa umhverfislistaverks hefjist fljótlega en þess má geta að allar fjórar tillögurnar, sem kepptu til úrslita í samkeppninni, verða kynntar í forrými nýju frystigeymslunnar á sjómannadaginn þann 2. júní nk. HB Grandi er einn af styrktaraðilum Hátíðar hafsins, sem haldin er sjómannadagshelgina, og að vanda býður HB Grandi starfsmönnum og öðrum gestum í kaffi og meðlæti í húsakynnum félagsins á Norðurgarði. Hugmyndin er jafnframt sú að hægt verði að opna frystigeymsluna formlega við sama tækifæri.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir