FréttirSkrá á póstlista

08.06.2009

Velheppnað sjómannadagskaffi og árshátíð

Það var mikið um að vera í húsakynnum HB Granda á Norðurgarði í gær því þar var opið hús á milli kl. 14 og 17 í tilefni sjómannadagsins. Talið er að vel á sjötta hundrað manns hafi komið í heimsókn og þegið veitingar og voru núverandi og fyrrverandi starfsmenn félagsins og fjölskyldur þeirra áberandi í þeim hópi.

,,Það er ekki annað hægt en að vera ánægður með það hvernig til tókst. Menn voru á einu máli um að það væri einkar vel til fundið að vera með samkomu sem þessa á sjómannadaginn og réttast væri að hún yrði árleg hefð héðan í frá,” segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, en þess má geta að hann og Svavar Svavarsson markaðsstjóri félagsins sáu um að halda uppi réttu stemningunni á opna húsinu er þeir gripu til gítaranna og leiddu fjöldasöng á sjómannlögum.

Það var annars nóg um að vera á vegum HB Granda um helgina því á laugardagskvöldinu bauð félagið til árshátíðar í Gullhömrum þar sem starfsmenn og makar þeirra nutu ljúffengs kvöldverðar og fjölbreyttra skemmtiatriða, sem öll voru flutt af starfsfólkinu. Síðan var stiginn dans fram á bjarta sumarnótt við dúndrandi danstónlist hljómsveitarinnar Buffs.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir