FréttirSkrá á póstlista

30.08.2013

Listsýningin ,,Smíð“ í lausu lofti í gamalli skemmu á Norðurgarði

Í dag verður opnuð listsýningin ,,Smíð“ á vegum Menningarhússins Skúrsins í skemmu við gömlu fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Norðurgarði. Höfundur verksins, sem er ljósmyndainnsetning unnin sérstaklega inn í Skúrinn, er Hrafnkell Sigurðsson en hann hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víðs verar um heiminn á undanförnum árum.


Í texta sem Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifar í tilefni af sýningunni segir m.a.:

,,Manni finnst maður vera einhvern veginn – sem einstaklingi og sem hluta af heild, samfélagi, byggð, þjóð. Við speglum okkur í fólkinu í kring og það í okkur; við verðum endalaust tilbrigði við hugmyndina um okkur sjálf, leikum spegilmynd okkar, spegilmynd spegilmyndar. Íslensk sjálfsmynd er eins og glerið, sterk og brothætt: hún sýnir velgengni og kjafthátt og þrjóskulega staðfestu, í henni blandast væg gúanólykt kölnarvatninu, rösklegt verkstjóra-jæja ómar undir teknóinu, íslensk gleði snýst um dugnað, við tengjum farsæld okkar við vellíðan.“

Til upplýsingar má geta þess að Skúrinn, sem sennilega er eitt minnsta sýningarhús landsins, stóð um skeið við íbúðarhús við Grenimel í Reykjavík og þar fóru fyrstu listsýningarnar fram. Ekki er langt síðan að eigandanum var gert að fjarlægja Skúrinn en næstu tvær vikurnar fær hann inni í gömlu skemmunni á Norðurgarði og verður sýningin ,,Smíð“ opin helgarnar 31. ágúst til 1. september og 7. til 8. september á milli klukkan 14 og 18.

Listrænn stjórnandi menningarhússins, myndlistarmaðurinn Finnur Arnar Arnarsson, segir að tildrög þess að gamla skemman á Norðurgarði varð fyrir valinu, hafi verið sú að listamaðurinn hafi viljað láta Skúrinn hanga í lausu lofti og því hafi leitin beinst að skemmu eða einhverju sambærilegu þar sem lofthæð væri nægilega mikil. Leitað var til forstjóra HB Granda, Vilhjálms Vilhjálmssonar, um afnot af fyrrnefndi skemmu.

,,Viðtökurnar, sem við fengum, voru einkar ánægjulegar og það kom okkur aðstandendum Menningarhússins Skúrsins skemmtilega á óvart  hve vel Vilhjálmur tók erindi okkar,“ segir Finnur Arnar.

Full ástæða er til að hvetja fólk til að gera sér ferð á Grandann og skoða sýninguna en fljótlega eftir að henni lýkur verður skemman, sem hýsir þennan listvirðburð, rifin. Hlutverki hennar er lokið en nokkur ár eru síðan að tæki og tankar gömlu fiskmjölsverksmiðjunnar í Reykjavík voru flutt til Vopnafjarðar þar sem HB Grandi starfrækir nú eina fullkomnustu fiskmjölsverksmiðju landsins.

Um listamanninn

Nýjustu fréttir

Allar fréttir