FréttirSkrá á póstlista

06.04.2009

Reynt við kolmunnann að nýju

Ákveðið hefur verið að senda öll þrjú uppsjávarveiðiskip HB Granda til kolmunnaveiða að nýju. Fyrirhugað er að Ingunn AK fari til veiðanna síðar í dag og Faxi RE og Lundey NS fara út í kvöld eða á morgun. Veiðunum var hætt í síðustu viku í kjölfar þess að kolmunninn hvarf af veiðisvæðinu sem þá var djúpt vestur af Írlandi.


,,Það hafa tvö íslensk skip verið að kolmunnaveiðum syðst í færeysku lögsögunni síðustu dagana og þótt aflinn hafi ekki verið neitt sérstakur þá eiga menn von á því að það fari að lifna yfir aflabrögðunum,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn hafa norsk skip verið að kolmunnaveiðum í skoskri lögsögu. Reynsla undanfarinna ára er á þá leið að það taki kolmunnann sjö til tíu daga að ganga af alþjóðlega hafsvæðinu, þar sem íslensku skipin voru að veiðum í marsmánuði, norður á gráa svæðið milli skosku og færeysku lögsögunnar og þaðan inn í þá færeysku.


Það sem af er þessu ári hafa skip HB Granda veitt um 13.300 tonn af kolmunna. Eftirstöðvar kvótans eru samkvæmt því 10.950 tonn. Að sögn Vilhjálms er heimilt að flytja allt að 2.000 tonn af kvótanum milli ára.


,,Við gætum geymt 2.000 tonn af kvóta þessa árs og bætt honum við aflaheimildir næsta árs eða þá aukið veiðina í ár um samsvarandi magn sem við yrðum þá að draga af kvóta næsta árs,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir