FréttirSkrá á póstlista

13.10.2008

Forseti Íslands í heimsókn hjá HB Granda

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, kom í morgun í heimsókn í fiskiðjuver HB Granda á Norðurgarði og átti þar góðan fund með starfsfólki félagsins. Fundurinn var sá fyrsti í röð vettvangsheimsókna sem forsetinn hyggst fara í á næstunni en yfirskrift þessara heimsókna er ,,Treystum undirstöðurnar – stöndum saman.“


Í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu segir að Forseti Íslands muni á næstu dögum heimsækja vinnustaði, skóla, samfélagsstofnanir, byggðarlög og hjálparmiðstöðvar. Í heimsóknunum verði lögð áhersla á samræður um hvernig Íslendingar geti þrátt fyrir hina miklu erfiðleika sem nú blasa við treyst undirstöður efnahagslífs og samfélags, sótt fram til nýrra og betri tíma, nýtt margvíslegar auðlindir landsins og fjölþættan mannauð sem þjóðin býr yfir. Mikilvægt sé að efla samstöðu og gagnkvæman stuðning landsmanna allra, bjartsýni og sóknarhug.


Fundurinn í matsal HB Granda á Norðurgarði var fjölsóttur. Um 120 manns hlýddu á mál Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar sem ávarpaði starfsfólkið á íslensku og ensku en þess má geta að hjá félaginu vinnur fólk af alls um 20 þjóðernum. Forsetinn kom víða við. Hann vék sérstaklega að mikilvægi sjávarútvegsins sem undirstöðuatvinnugreinar og uppsprettu þess að fá erlendan gjaldeyri inn í landið. Hr. Ólafur Ragnar notaði sömuleiðis tækifærið til að koma á framfæri þakklæti til starfsfólksins fyrir þeirra störf en margir af starfsmönnum HB Granda eiga að baki áratuga starfsreynslu á sviði fiskveiða og fiskvinnslu. Forsetinn gat þess og að hann hefði á sínum tíma, sem ungur maður, unnið hjá Ísbirninum á Seltjarnarnesi við að hengja upp fisk í skreið en sem kunnugt er þá varð Grandi hf. til við sameiningu Ísbjarnarins og Bæjarútgerðar Reykjavíkur á sínum tíma.


Eftir að hafa ávarpað starfsmenn, gekk forsetinn á milli manna og ræddi við starfsfólk.  Þá átti hann fund með stjórnendum fyrirtækisins þar sem farið var yfir stöðu efnahagsmálanna og þann vanda sem sækir að íslenskri þjóð í dag. Að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, var heimsókn forsetans ákaflega gagnleg og hann segist meta mikils þann heiður sem Forseti Íslands sýndi fyrirtækinu og starfsfólkinu með henni.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir