FréttirSkrá á póstlista

30.12.2021

Stefnir í Íslandsmet hjá Viðey RE

Það stefnir í að áhöfnin á ísfisktogaranum Viðey RE setji nýtt og glæsilegt Íslandsmet á þessu ári. Heildarafli togarans á árinu er um 10.300 tonn að verðmæti rúmlega 2,1 milljarða króna. Viðey hafði áður náð best 10.143 tonna afla árið 2019.

Viðey er nú á heimleið með um 200 tonna afla, miðað við fisk upp úr sjó, sem fékkst í stuttri veiðiferð á Vestfjarðamið.

,,Við fórum frá Reykjavík á miðnætti aðfararnætur sl. mánudags og héldum beint norður í Víkurál. Þar vorum við í 19 tíma og fengum alls um 60 tonn af mjög góðum fiski, aðallega þorsk og síðan karfa en einnig nokkur tonn af ufsa,” segir Kristján E. Gíslason (Kiddó) sem var skipstjóri í veiðiferðinni.

Kiddó segist síðan hafa ákveðið að reyna fyrir sér á Halanum.

,,Það var komið slæmt veður þegar við lögðum af stað og það var vitlaust veður á leiðinni. Norðaustan 20 til 30 m/s og tíu stiga frost. Við vorum 12 tíma að berjast norður á Hala en venjulega siglum við þessa leið á um sex tímum.”

Kiddó segist þó ekki sjá eftir því að fara á Halann því þar hafi verið fádæma góð veiði. Mikið líf hafi verið á slóðinni og fiskurinn stór og vel haldinn. Þorskurinn hafi verið 3-4 kg að jafnaði og ufsinn um kílói þyngri.

,,Við ættum að koma til Reykjavíkur fyrir miðnætti þannig að veiðiferðin verður fjórir sólarhringar höfn í höfn. Mannskapurinn er að vonum ánægður enda er árangurinn á árinu búinn að vera einstakur. Reyndar er það svo að það er ekki nóg að fiska. Þessi árangur hefði ekki náðst nema vegna þess að hér er samhent og góð áhöfn. Þetta eru hörkukarlar sem standa fyrir sínu,” segir Kristján E. Gíslason (Kiddó).

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir