FréttirSkrá á póstlista

27.12.2021

Sestur í helgan stein eftir hálfrar aldar sjómennskuferil

Frystitogarinn Örfirisey RE kom til hafnar í Reykjavík rétt fyrr jól eftir góða veiðiferð á miðin suður og suðvestur af landinu og Vestfjarðamið. Þetta var síðasta veiðiferð Þórs Þórarinssonar, skipstjóra á Örfirisey, eftir um 50 ára farsælan sjómennskuferil. Þar af hefur Þór verið á Örfirisey í tæp 30 ár eða frá því að skipið kom hingað til lands frá Færeyjum árið 1992.

,,Ég hóf störf hjá Granda hf., einum af forverum Brims, árið 1989. Fyrstu árin var ég á ísfisktogaranum Ásgeiri RE en ég fluttist svo yfir á Örfirisey árið 1992 þegar skipið kom til landsins. Trausti og Símon voru þá skipstjórar á Örfirisey en ég tók við sem skipstjóri þegar Símon hætti,” segir Þór en hann getur þess að ekki sé annað hægt en að vera ánægður með síðasta túrinn.

,,Við byrjuðum veiðar fyrir sunnan land og fengum aðallega karfa og ufsa. Svo fluttum við okkur norður á Vestfjarðamið og vorum þar lengst af túrnum. Við hófum veiðarnar á Halanum og unnum okkur að Þverálshorninu. Þar, sem og í djúpkantinum vestur af Vestfjörðum, var aflinn mjög blandaður og við fengum þorsk, ýsu, ufsa, gullkarfa og djúpkarfa. Eins vörðum við nokkrum tíma í ýsuveiðar á Straumnesgrunni, rétt austan við Djúpálinn, og veiðin var alveg ágæt. Túrinn enduðum við svo á SV miðum,” segir Þór en þess má geta að alls fengust um 800 tonn af fiski upp úr sjó í veiðiferðinni að verðmæti um 330 milljóna króna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir