FréttirSkrá á póstlista

21.12.2021

Fínn afli í stuttri veiðiferð

,,Við fórum á Vestfjarðamið í haugabrælu. Um leið og við vorum komnir á miðin var komið ágætasta veður og við vorum alls með 110 tonna afla á tiltölulega stuttum tíma. Veiðiferðin tók alls fjóra daga höfn í höfn,” segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, en skipið kom til hafnar í Reykjavík í hádeginu í gær.

Að sögn Heimis hóf hann veiðar austur af Djúpál en þaðan vann hann sig austur að Þverálshorni. Góður afli, aðallega þorskur, fékkst á slóðinni.

,,Við fórum svo í Víkurálinn. Þar var góð karfaveiði og við tókum það magn sem við máttum veiða,” segir Heimir.

Líkt og greint hefur verið frá hér á heimasíðu Brims, var þorskveiði mjög góð á Dohrnbankanum á milli Íslands og Grænlands í lok nóvember og framan af desembermánuði.

,,Veiðin dalaði svo en enginn hefur komist til að athuga veiðina í lengri tíma vegna stöðugra stórviðra á þessum slóðum. Við munum hins vegar gefa Dohrnbankanum góðar gætur þegar veiðar hefjast að nýju eftir jólahátíðina,” segir Heimir Guðbjörnsson en þess má geta að Helga María mun fara í næstu veiðiferð sína á milli jóla og nýjárs.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir