FréttirSkrá á póstlista

15.11.2021

Góð veiði þrátt fyrir viðsjárvert veður

Frystitogarinn Vigri RE er nú í höfn í Reykjavík eftir veiðiferð sem spannaði veiðislóðina frá Reykjanesgrunni norður og austur á Kolkugrunn út af Húnaflóa. Eyþór Atli Scott skipstjóri er ánægður með túrinn. Aflinn var um 1.070 til 1.080 tonn upp úr sjó og þar af var tæplega helmingur aflans ufsi.

,,Við fórum frá Reykjavík þann 12. október sl. og hófum veiðar í austurhorni Víkuráls. Þar var góð ufsaveiði. Við unnum okkur svo norðaustur kantinn. Það var ekki mikið að hafa á Halanum og við fórum því vestur á Kópanesgrunn. Þar var hvort tveggja ufsi og þorskur og það var góð veiði í eina fjóra daga,” segir Eyþór en þá fékk áhöfnin nýtt verkefni.

,,Örfirisey RE bilaði og það kom í okkar hlut að draga skipið til hafnar á Ísafirði. Það passaði því þegar þangað kom var komið vitlaust veður á Vestfjarðamiðum. Við biðum af okkur veðrið í tvo sólarhringa á Ísafirði en þegar við komumst út að nýju fórum við austur á Tunguna,” segir Eyþór en að hans sögn er Tungan á Kolkugrunni út af Húnaflóa. Skipið var svo mikið á veiðum á svæðinu og nálægum miðum.

,,Við fórum í Reykjafjarðarálinn og á Hornbankanum fengum við ýsu. Aflinn fyrir norðan var annars mest ufsi og þorskur. Það var mikið líf í öllum köntum og greinilega nóg æti fyrir fiskinn en loðnu urðum við ekki varir við þarna norðurfrá.

Vigri kom inn til millilöndunar í Reykjavík í lok október og segir Eyþór að eftir hana hafi suðursvæðinu verið sinnt.

,,Við fengum hellingsafla ofarlega í Skerjadjúpinu og einnig á Reykjanesgrunni. Það var mjög góð ufsaveiði í Skerjadjúpi og þegar við gátum ekki veitt ufsann fengum við dágóðan djúpkarfaafla. Við fórum einnig á Fjöllin og sem betur fer var þar ekki mikið af gullkarfa. Ufsinn var hins vegar á svæðinu og besta aflann fengum við í hinum svokallaða Sparisjóði, rétt suður af Fjöllunum,” segir Eyþór Atli Scott en hann segir að auk ufsans hafi aðallega fengist gullkarfi, djúpkarfi, þorskur og ýsa. Mun minna hafi verið af öðrum tegundum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir