FréttirSkrá á póstlista

30.09.2021

Akurey AK landaði í Neskaupstað

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til Norðfjarðar í morgun með um 60 tonn af fiski, svo til eingöngu þorsk, og var aflanum landað í Neskaupstað í dag. 

Að sögn skipstjórans, Magnúsar Kristjánssonar, fór Akurey frá Sauðárkróki í byrjun vikurnar en skipið hefur verið að veiðum fyrir norðan land að undanförnu. Veiðin er nú dottin niður fyrir norðan og Magnús og hans menn leituðu því aðallega fyrir sér á Austfjarðamiðum.

,,Við vorum mest á Digranesflaki og þar í kring en leituðum s.s. fyrir okkur víðar,” segir Magnús.

Afar slæmt veður hefur verið frá Austfjarðamiðum, fyrir norðan og vestur fyrir land, síðustu daga og hefur áhöfnin á Akurey ekki farið varhluta af ofsanum í veðrinu.

,,Veðrið er gengið niður núna og við förum aftur til veiða nú síðdegis. Það er ómögulegt að segja hvert við förum næst. Það eina, sem er öruggt, er að við förum ekki suður fyrir land. Við munum leita fyrir okkur hér fyrir austan til að byrja með og síðan vinna okkur vestur eftir fyrir norðan land,” segir Magnús Kristjánsson.

 
 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir