FréttirSkrá á póstlista

09.09.2021

Hvernig verða orkuskiptin í sjávarútvegi?

Nú í kjölfar nýjustu skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna blasir við öllum sem einhver áhrif geta haft á loftslag jarðar, að bregðast verður við hratt og af öryggi. Hlutverk stjórnvalda er auðvitað mikilvægast, þeirra er að túlka vilja kjósenda og móta stefnuna. Málefnið er hins vegar svo áríðandi að það krefst þess að allir sem eitthvað geta haft um það að segja bregðist við og leggist saman á árarnar.

Að sama skapi verðum við að horfa til þess sem skilar áþreifanlegum árangri. Við verðum að nýta vísindi og hugvit, horfa á tölur og staðreyndir og horfa til margvíslegrar hugmynda- og aðferðafræði. Lausnin á loftslagsvandanum verður ekki einföld heldur kemur hún úr ýmsum áttum.

Á Íslandi er sjávarútvegur ein þeirra greina sem, sökum stærðar, skiptir miklu máli í losun gróðurhúsalofttegunda. Vistspor sjávarútvegs er stórt ef litið er á það eitt og sér – en áður en við stígum næstu skref verðum við þó fyrst að skoða hlutina í samhengi. Sjávarútvegur er líka dæmi um það hvernig stórar atvinnugreinar geta náð eftirtektarverðum árangri í loftslagsmálum en um leið blómstrað og haldið samkeppnishæfni sinni.

Kolefnisspor vegna fiskveiða við Ísland er í dag einungis tæplega helmingur þess sem það var fyrir aldarfjórðungi. Á sama tíma hefur losun koltvísýrings í hagkerfi Íslands meira en tvöfaldast. Þetta kemur til af ýmsu; hagkvæmari veiðum, endurnýjun skipaflotans með nýrri hönnun og sparneytnari vélum, betri veiðitækni og betra ástands fiskistofna.

 

Úrdráttur úr grein Grétu Maríu Grétarsdóttur, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim, um orkuskipti í sjávarútvegi sem birtist á Visir.is og lesa má í heild hér https://www.visir.is/g/20212153324d/hvernig-verda-orku-skiptin-i-sjavar-ut-vegi-

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir