FréttirSkrá á póstlista

27.08.2021

Lítið af ufsa um þessar mundir

,,Það gekk ljómandi vel og við erum ánægðir með árangurinn. Heildarafli var á milli 1.000 og 1.100 tonn upp úr sjó og veðrið lék við okkur allan tímann,” segir Þór Þórarinsson, sem var skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í síðustu veiðferð, en togarinn kom til hafnar í Reykjavík sl. föstudag.

Þór segir veiðiferðina hafa hafist á því að leita að ufsa í veiðanlegu magni á Fjöllunum vestur af Reykjanesi.

,,Við fengum smávegis af ufsa en heilt yfir er ekki mikið að ufsa á veiðislóðinni um þessar mundir,” segir Þór en hann segist hafa brugðist við með því að fara suður í Skerjadjúp.

,,Í Skerjadjúpinu var töluvert af djúpkarfa, sem er frekar sjaldgæft miðað við árstíma, og við fengum ágætan afla. Við millilönduðum um 600 tonnum af fiski upp úr sjó eftir 13 daga úthald í Reykjavík og svo var stefnan sett á Vestfjarðamið.

,,Líkt og fyrr vorum við fyrst og fremst að leita að ufsa en við áttum svo einnig eftir smávegis af þorsk- og ýsukvótanum. Ufsinn er vandfundinn og ég held að það sé ekki mikið af honum. Aflinn fyrir vestan var því aðallega þorskur og ýsa.”

Eftir nokkra daga á Vestfjarðamiðum ákváð Þór að reyna aftur við ufsann á Fjöllunum.

,,Það var lítið um ufsa en við fengum töluvert af gullkarfa. Í lokin fór ég svo aftur í Skerjadjúpið. Aðeins varð vart við djúpkarfa en ekkert í líkingu við aflann í byrjun veiðiferðarinnar,” segir Þór.

Örfirisey hefur gert víðreist í sumar og m.a. verið að veiðum í norsku lögsögunni í Barentshafi.

,,Ég fór ekki í Barentshafið en mér skilst að aflinn þar í sumar hafi verið lakari en undanfarin sumur. Það er eitthvað eftir af kvótanum og líklega verður farið eftir því í haust,” segir Þór Þórarinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir