FréttirSkrá á póstlista

02.07.2021

Karfinn til vandræða á Halanum

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til hafnar í Reykjavík í gær með um 170 tonn af fiski. Þetta er svipað aflamagn og í túrnum á undan og skipstjórinn, Eiríkur Jónsson, lætur vel af aflabrögðunum á Vestfjarðamiðum í sumar.

,,Við byrjuðum núna í Nesdjúpi en fórum svo norður á Barðagrunn og enduðum loks á Halanum. Í fyrrasumar var fiskurinn horfinn austur af þessum miðum og við sjáum það nú að fiskurinn er að hverfa úr köntunum. Hins vegar er nóg líf á grunnslóðinni. Þar hefur gengið trönusíli í töluverðu magni og fiskurinn eltir þetta æti,” segir Eiríkur en hann segir aflann í veiðiferðinni aðallega vera þorsk, ýsu og kola.

Að sögn Eiríks geta menn ekki almennilega beitt sér á Halamiðum um þessar mundir enda hefur karfi flætt þar yfir í stórum stíl. Nú þegar hillir undir nýtt fiskveiðiár eru margir langt komnir með karfakvótann sinn og fyrir þá er mikil karfagengd á Halanum hrein ávísun á vandræði.

,,Mér sýnist allt stefna í að fiskurinn færist austar í sumar, líkt og verið hefur nokkur undanfarin ár. Þverállinn virðist vera að vakna og mér kæmi ekki á óvart að Stranda- og Skagagrunn myndu fylgja í kjölfarið,” segir Eiríkur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir