FréttirSkrá á póstlista

23.06.2021

Konur sem sigla umhverfis landið

Í dag steig Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri samfélagsábyrgðar, nýsköpunar og fjárfestatengsla hjá Brim, um borð í seglskútuna Esju, sem nú er á siglingu umhverfis landið. Gréta verður í áhöfn skútunnar  á ferð hennar frá Akureyri til Húsavíkur, en einungis konur eru í áhöfninni.

Markmið kvennasiglingarinnar er að virkja konur til siglinga við Íslandsstrendur undir yfirskriftinni: Hafið er okkar umhverfi. Einnig vilja Seiglurnar, heiti kvennahópsins sem er í fastri áhöfn Esju, vekja  athygli á heilbrigði hafsins og hvetja alla til ábyrgrar umgengni við hafið og auðlindir þess.

Brim er stoltur styrktaraðili verkefnisins en 35 konur á öllum aldri taka þátt í því og stíga um borð hér og þar í höfnum landsins.

Brenna fyrir umhverfismálum

Seiglurnar eru Sigríður Ólafsdóttir skipstjóri, Helena W. Óladóttir leiðangursstjóri, Anna Karen Jörgensdóttir, Bryndís Skúladóttir, Halla Ólafsdóttir og Tara Ósk Magnúsdóttir. Þær eru ýmist reyndar siglingakonur eða nýgræðingar á hafi en brenna allar fyrir umhverfismálum. Nafnið Seiglurnar vísar til umhverfismála, verkefnisins og þátttakenda. Það þarf seiglu til að takast á við umhverfismál og seiglu til að sigla umhverfis Ísland og takast á við áskoranir hafsins.

Siglingin hófst í Reykjavík 13. júní síðastliðinn og stendur yfir í þrjár vikur með viðkomu í átta höfnum, þar sem áhöfnin tekur sífelldum breytingum. Yfir 100 konur sóttu um að fá að taka þátt í siglingunni og er þátttakan því vonum framar.

Esja er 50 feta Bavari-skúta. Hún ber allt að tíu kvenna áhöfn í fimm káetum, ásamt miðjurými þar sem sameinast eldhús, vinnurými og setustofa. Siglingarleiðin hjá Seiglunum er um 1400 sjómílur.

Brim óskar áhöfninni og öllum þeim konum sem að siglingunni koma góðs gengis með von um góðan meðbyr á vegferð þeirra um ólgandi hafið.

Hægt er að fylgjast með þeim á Instagram og Facebook svæði þeirra:

 


Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir