FréttirSkrá á póstlista

11.06.2021

Stærðin eykur arðsemi og sjálfbærni og bætir afrakstur auðlindarinnar

Brim hefur vaxið jafnt og þétt í yfir þrjá áratugi, ræður yfir meiri aflaheimildum en önnur fyrirtæki og er stærsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi – samt er það ekki á lista yfir tuttugu stærstu fyrirtæki á Íslandi.

Ekkert fyrirtæki hefur fjárfest meira í aflaheimildum á Íslandsmiðum en Brim hf. í Reykjavík og er það stærsta sjávarútvegsfyrirtækið á Íslandi. Núna fær félagið úthlutað aflamarki í þorskígildum sem nemur um 12% af heildarúthlutun veiðiheimilda á Íslandi og er það leyfilegt hámark. Þrátt fyrir mikilvægi sjávarútvegs í íslensku efnahags- og atvinnulífi er fyrirtækið langt frá því að vera í hópi allra stærstu fyrirtækja á Íslandi. Í upphafi árs 2020 var Brim í 22. sæti yfir stærstu fyrirtæki landsins samkvæmt árlegri samantekt Frjálsrar verslunar. Velta félagsins á árinu 2019 nam um 37,2 milljörðum króna og var um 22% af veltu Icelandair, sem líkt og Brim starfar á alþjóðamarkaði, og um þriðjungur af veltu Haga sem aðeins starfar á heimamarkaði. Hins vegar var Brim tíundi stærsti launagreiðandinn á landinu og greiddi samtals 8,7 milljarða króna í laun á því ári.

Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi sækja á alþjóðamarkaði þar sem samkeppni er vaxandi og hörð. Þar er Brim lítið fyrirtæki. Á alþjóðamarkaði velta 13 stærstu fyrirtækin hvert um sig meira en öll íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til samans og þau allra stærstu nærri fimmfalt á við íslenskan útveg. Hlutur Íslendinga hefur minnkað hin síðari ár vegna gríðarlegs vaxtar í fiskeldi og er hlutdeild þeirra í verðmætum talið nú innan við 1,4% af heimsmarkaði. „Brim er því í þeirri athyglisverðu stöðu að vera í senn stórt fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi, miðlungsfyrirtæki í íslensku atvinnulífi og agnarlítið seiði á heimsmarkaði fyrir sjávarafurðir,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri félagsins.

Dreift eignarhald og gagnsæi

Í um áratug eða þar til á þessu ári var Brim eina sjávarútvegsfyrirtækið sem var í almenningseign og skráð á markað. Í dag eru hluthafar yfir 1.000 og þar á meðal lífeyrissjóðir með tugþúsundir aðildarfélaga. Brim hefur lagt metnað sinn í að upplýsa hluthafa og almenning um starfsemi félagsins og birtir á ári hverju fjárhagsuppgjör og skýrslu um samfélags- og umhverfismál. Þar má greina með gagnsæjum hætti alla mikilvægustu þættina í starfi félagsins. Brim var fyrst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til að birta umhverfisskýrslu og hlaut félagið Umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2019.

Markviss vöxtur

Brim hefur aukið jafnt og þétt við aflaheimildir sínar í um þrjátíu ár. Grandi, sem var forveri Brims og varð til við sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins, var eitt fjölmargra fyrirtækja í sjávarútvegi á Íslandi síðasta áratug 20. aldar sem átti í rekstrarerfiðleikum vegna þess að afkastageta veiðiskipa og vinnslustöðva var langt umfram heimildir til veiða. Óheft og alltof mikil veiði áratuganna á undan hafði leitt til hnignunar veiðistofna og offjárfestinga í greininni. Komið var að skuldadögum. Til þess að eiga framtíð varð félagið að stækka og bæta við sig aflaheimildum. Þá tók fyrirtækið stefnumótandi ákvörðun um að stækka með því að kaupa aflaheimildir. Var því fylgt eftir með kaupum á Haraldi Böðvarssyni á Akranesi, með kaupum og samruna við önnur fyrirtæki á borð við Tanga á Vopnafirði, Svan og Ögurvík í Reykjavík og Kambi í Hafnarfirði og einnig með beinum kaupum á veiðiheimildum.

Botnfiskur

Í helstu botnsjávartegundunum hefur Brim bætt við sig aflaheimildum í stórum áföngum (sbr. Graf 1). Fyrst aukast heimildir í öllum tegundum árið 2004 þegar félagið rann saman við HB á Akranesi og Tanga á Vopnafirði. Síðan aukast heimildir í þorski, ýsu og ufsa á árunum 2016, 2018 og 2020 þegar Brim festi kaup á fyrirtækjunum Hafnarnesi, Ögurvík og Kambi (sbr. Tafla 1). Að auki eru tilfærslur á milli tegunda flest árin eins og sjá má þegar félagið minnkar við sig í karfa og grálúðu og þá í skiptum fyrir heimildir í öðrum tegundum.


Tafla 1


Helstu sameiningar og kaup á fyrirtækjum og aflaheimildum í botnfiski

Hraðfrystistöðin í Reykjavík 1990.
Venus 2001
HB á Akranesi 2004
Tangi Vopnafirði 2004
Hafnarnes 2016
Ögurvík 2018
Kambur 2020

Uppsjávartegundir

Fram að aldamótum átti forveri Brims engar aflaheimildir í uppsjávartegundum öðrum en loðnu og voru þær frekar litlar (sbr. Graf 2). Á þessu urðu miklar breytingar 2004 þegar félagið keypti HB á Akranesi, Tanga og Svan og umtalsverðan loðnukvóta af Festi (sbr. Tafla 2). Þá margfölduðust heimildir úr um 2,5% af heildarúthlutun í um 18% af loðnu og 11% í síld. Þá fékk félagið verulega hlutdeild í norsk-íslensku síldinni og kolmunna og síðan í makríl þegar hún var gefin út fyrir þremur árum.

Tafla 2

Helstu sameiningar og kaup á fyrirtækjum og aflaheimildum í uppsjávarfiski

Faxamjöl, stofnað1989
HB á Akranesi 2004
Festi 2004 (loðnukvóti)
Tangi Vopnafirði 2004
Svanur 2004

Kaup á aflaheimildum og sameiningar félaga og yfirtökur á síðustu áratugum hafa kostað Brim verulega fjármuni. Í efnahagsreikningi fyrir 2020 kemur fram að aflaheimildir er langstærsta einstaka eign félagsins en heildareignir eru 111,6 milljarðar króna miðað við núverandi gengi evrunnar. „Þar af eru aflaheimildir að kaupverði um 45 milljarðar króna í samanburði við fiskiskip og búnað að fjárhæð um 22 milljarðar króna ,“ segir Guðmundur. „Aflaheimildirnar skipta Brim því verulegu máli og hefur sú stefna félagsins undanfarna áratugi að auka markvisst við þær skilað sér í vexti félagsins og auknum fjárhagslegum styrk,“ segir hann.

Af hverju skiptir stærðin máli?

Markmið laga um fiskveiðistjórnun er að stuðla að verndun nytjastofna og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. „Frá því lögin voru sett hefur gríðarleg hagræðing átt sér stað í greininni vegna þess að fyrirtæki hafa sameinast og rekstrareiningar eins og skip og vinnslur hafa stækkað og aukið til muna afkastagetu með nýtingu nýjustu tækni á hverjum tíma, bæði vélbúnaðar og hugbúnaðar,“ segir Guðmundur. „Langflest fyrirtæki í sjávarútvegi eru í dag að skila arði sem meðal annars skilar sér í fjárfestingum þeirra og öflugri atvinnustarfsemi víða um land en sjávarútvegurinn er helsti máttarstólpinn í atvinnulífi á landsbyggðinni. Þá eru fyrirtæki í greininni að greiða góð laun og eru meðallaun í greininni að jafnaði hærri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi, sérstaklega ef horft er til annarra greina á landsbyggðinni.“

Hagræðing, aukin arðsemi, meiri gæði – lægra kolefnisspor

Hagræðing síðustu áratuga hefur leitt til þess að fyrirtæki eins og Brim eru stærri og öflugri, þau eru arðsamari, sjálfbærni hefur aukist, afrakstur auðlindar hefur aukist þar sem verðmætin sem hún skapar hefur aukist.

En hvernig gerist það að auknar aflaheimildir og þar með stærð fyrirtækisins hafa margvísleg jákvæð áhrif á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja?

„Mestu skiptir að með auknum aflaheimildum getur útgerðin skipulagt veiðar betur og nýtt betur skip sín og annan dýran búnað og lækkað kostnað við að sækja hvert tonn af fiski og minnkað jafnframt brennslu á eldsneyti og þar með kolefnissporið,“ svarar Guðmundur. Frá árinu 2005 hefur eldsneytisnotkun fiskiskipa Brims dregist saman um þriðjung á sama tíma og veiði hefur aukist. Á sama hátt verður vinnslan á afurðum hagkvæmari því með meiri afla nýtist betur fjárfesting í hátæknibúnaði vinnsluhúsanna. Fyrir um 25 árum og áður en Brim hóf að auka markvisst við sig aflaheimildir var algengt að vinna félli niður í fiskiðjuverinu í einhverja daga í mánuði hverjum, sérstaklega á veturna. Því fylgdi augljóst óhagræði fyrir fyrirtækið og óöryggi fyrir starfsfólk og tekjutap.

„Aukin hagræðing og arðsemi skilar sér síðan áfram með margvíslegum jákvæðum hætti eins og getu til að laða að gott starfsfólk vegna góðra launa, fjárfestingum í nýjum búnaði og tækjum sem skilar sér í aukinni sjálfbærni og enn lægra kolefnisspori, meira öryggi, meiri gæðum vörunnar og enn meiri áreiðanleika í afhendingu á vörum til viðskiptavina,“ segir Guðmundur enn fremur.

Samkeppnishæfnin eykst

99% af öllum framleiðsluvörum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja eru seld á alþjóðlegum mörkuðum. Guðmundur segir að í þeirri baráttu þurfi íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að vera samkeppnishæf við öflug og alþjóðleg risafyrirtæki. Stærð fyrirtækja í sjávarútvegi gerir þau hæfari til samkeppni. Öruggur aðgangur að villtum fiski eykur gæði vinnslunnar og tryggir framboð og afhendingu á vörum. Hann segir að í dag auki það jafnframt samkeppnishæfni að veiðar séu sjálfbærar og kolefnisspor, lítið eins og áður hefur verið nefnt, en kolefnissporið í íslenskum sjávarútvegi er það minnsta sem þekkist í heiminum við framleiðslu á próteini.

Að síðustu gefur stærð og styrkur framleiðenda á sjávarafurðum aukinn möguleika á að tryggja sér hlutdeild í allri virðiskeðju sjávarafurða sem þýðir að þau geta fylgt vörunni frá veiðum til neytenda. Brim hefur einmitt á síðustu árum haft fjárhagslega burði til að fjárfesta í sölufyrirtækjum sem selja sjávarafurðir undir vörumerki Icelandic í Suðaustur-Asíu og Kína. Guðmundur telur að aðgangur að þeim mörkuðum og þekking á þeim sé ein af helstu forsendum fyrir því að Brim geti vænst þess að koma afurðum sínum á þá markaði sem greiða hæsta verð fyrir sjávarfang og þar með aukið afrakstur þeirrar takmörkuðu auðlindar sem fiskurinn í sjónum er.

Tímamót

Eftir farsælan vöxt sjávarútvegs í áratugi stendur greinin nú á tímamótum. Segja má að fiskveiðilöggjöfin reisi skorður við frekari vexti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Vekja þær skorður spurningar í ljósi nýlegrar skýrslu fjögurra sérfræðinga um sjávarútveg sem unnin var fyrir sjávarútvegsráðuneytið þar sem kom í ljós að sjávarútvegur á Íslandi er sá eini innan vébanda 28 OECD-ríkja sem greiðir með sér til samneyslunnar en þrífst ekki á opinberum styrkjum og er því sjálfbærari og betur rekinn en í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við.

„Eftir uppbyggingu og vöxt í um þrjá áratugi er Brim komið að þeim mörkum sem lagaheimildir á Íslandi segja til um hvað varðar aflaheimildir, eða 12% af heildarúthlutun í þorskígildum,“ segir Guðmundur og bætir við að nú þurfi að fara fram málefnalegar og opnar viðræður stjórnvalda og fyrirtækja í greininni um að hætta útreikningum á þorskígildistonnum og miða aðeins við hámark í hverri fisktegund en í dag er það 12% í þorski, 20% í ýsu, ufsa og fleiri tegundum og 35% í karfa. „Fyrir fyrirtæki í almenningseigu sem skráð eru í kauphöll og lúta reglum um upplýsingaskyldu og gagnsæi gæti hámarkið í hverri fisktegund verið það sama og það er í dag,“ segir hann. „Aðferðafræðin sem notuð er við að reikna þorskígildin eru úrelt og röng. Það er alvarlegt mál þegar yfirvöld reikna og beita reglum á vitlausum forsendum eins og nú er gert. Á þetta þarf að binda enda og um leið að gefa fyrirtækjum möguleika á að vaxa, auka nýsköpun og takast á við vaxandi samkeppni,“ segir Guðmundur.

Í gegnum tíðina hefur mikil umræða verið um sjávarútveg á Íslandi. Hefur hún einkum snúist um auðlindagjald sem fyrirtæki í sjávarútvegi greiða hinu opinbera fyrir veiðiheimildir. „Sú umræða mun örugglega halda áfram,“ segir Guðmundur og bætir við að eins og sjá megi af sögu Brims og þeirri stöðu sem félagið er í sé ljóst að ræða þarf frekar möguleika fyrirtækja í almenningseigu á að bæta við sig aflaheimildum til að fyrirtækin geti haldið áfram að hagræða og auka verðmætasköpun í greininni. „Framtíðin er björt ef við sem þjóð höldum áfram að taka skynsamlegar ákvarðanir,“ segir Guðmundur. „Við þurfum alltaf að læra af sögunni.“

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, 5. júní 2021 
https://www.frettabladid.is/kynningar/strin-eykur-arsemi-og-sjalfbrni-og-btir-afrakstur-aulindarinnar/

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir