FréttirSkrá á póstlista

09.06.2021

Brim gerist bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags

Brim hefur gerst bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags til næstu fjögurra ára og styrkir félagið um 16 milljónir króna á því tímabili. Forseti Hins íslenska bókmenntafélags, Jón Sigurðsson, og Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, undirrituðu samning þess efnis við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhússinu.

Við það tilefni sagði Guðmundur það ánægjulegt að styðja þetta sögufræga félag sem með starfi sínu hefði haft mikil áhrif á líf okkar hér á landi og þá menningu sem hér hefur þróast. Hann sagði ennfremur að það væri eðlilegt að rótgróið sjávarútvegsfyrirtæki styddi við starfsemi sem hefur að markmiði að efla íslenska menningu og tungu. „Lífið í þessu landi hefur lengst af snúist um bókmenntir, sögu og fisk. Náttúran, sjávaröflin og fiskurinn hefur mótað tilveru okkar hér á Íslandi í gegnum aldirnar og er samofin menningu okkar og tungu. Í hafi þjóðanna eru þetta þeir þættir sem skapa okkur sérstöðu og eru hlutar af sjálfsmynd okkar. Hvar sem við erum og hver sem við erum þá skiptir máli að sérstaðan sé skýr og sjálfsmyndin traust. Sjávarútvegurinn líkt og menningin og tungan gerir okkur að þeim sem við erum, sagði Guðmundur.

Guðmundur sagði ennfremur að Brim vildi rækja skildur sínar við samfélagið í heild af alúð og þar með sinna þáttum sem ekki eru metnir til krónu og aura eins og að styðja við íslenska tungu. „Við viljum leggja íslenskri tungu lið með ýmsum hætti eins og sést hér í dag en við viljum líka líta í eigin barm,“ sagði Guðmundur. „Þar ber fyrst að líta til þess að á meðal um 800 starfsmanna félagsins er stór hópur sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Við lítum nú svo á að það sé okkar hlutverk að leggja þeim lið við að ná tökum á íslenskunni og fá þannig tækifæri til að nýta hæfileika sína og sköpunarkraft að fullu og auðga þannig samtímis eigið líf og samfélag okkar allra. Þá er einnig áhugi hjá okkur að leggja rækt við þann brunn orða og orðasambanda sem við eigum og tengist atvinnuháttum til sjós og lands sem eru horfnir en mega ekki hverfa úr daglegu máli.“

Bókmenntafélagið hefur gegnt mikilvægu menningarhlutverki frá stofnun þess árið 1816 með útgáfu fræði- forn- og menningarrita. Þannig hefur félagið stutt margvísleg fræðistörf og varðveislu og eflingu íslenskrar tungu. Félagið var mikilvægur starfsvettvangur þeirra manna sem hrundu af stað sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á nítjándu öld. Hún byggðist á því að reisa við sjálfstæðar menntir og menningu í landinu undir forystu Íslendinga sjálfra. Þeir gerðu sér ljóst að tungumálið – þetta mál sem við tölum enn – er dýrasti þáttur íslenskrar menningar. Félagið hefur starfað óslitið í 205 ár. Í því starfi er fólgin menningararfleifð sem núlifandi kynslóð ber að ávaxta, efla og endurnýja.

Í fréttatilkynning frá Hinu íslenska bókmenntafélagi segir: “Brim er í forystuhlutverki hvað varðar samfélagsábyrgð fyrirtækja í atvinnurekstri og leggur ríka áherslu á umhverfismál og nýsköpun í starfsemi sinni. Brim tekur þannig virkan þátt í uppbyggingu íslensks samfélags. Íslensk tunga er snar þáttur í samheldni og styrk samfélagsins og er í reynd hluti af þeim mikilvægu innviðum þess sem Brim vill efla. ... Það er sérstaklega ánægjulegt að Brim sem leiðandi sjávarúrvegsfyrirtæki landsins skuli nú ákveða að gera þennan styrktar- og samstarfssamning við Bókmenntafélagið og gerast þannig bakhjarl þess.“

 Fleiri myndir með frétt

Nýjustu fréttir

Allar fréttir