FréttirSkrá á póstlista

06.06.2021

Bráðum í hálfa öld til sjós

Haraldur Árnason er fæddur og uppalinn Gaflari, 15.apríl 1954, sonur hjónanna Árna Bjarnasonar sjómanns og Áslaugar Ólafsdóttur húsmóður. Halli, eins og hann er kallaður, byrjaði, að eigin sögn, til sjós sem pjakkur með grásleppukörlunum í Hafnarfirði.

,,Ég ólst upp á Hólabrautinni í Hafnarfirði en þar bjuggu aðallega sjómenn. Ég fékk stundum að fara með Gunnari Gíslasyni á sjó til að rétta af kompásinn en hinn eiginlegi ferill byrjaði ekki fyrr en 1972. Þá fékk ég pláss á Manna frá Keflavík. Ég var svo á ýmsum bátum og togurum, ma. á síðutogaranum Maí og síðar á skuttogurunum Júní og Maí sem gerðir voru út frá Hafnarfirði,” segir Halli en hann fór í Stýrimannaskólann 1977-1979.

,,Það eru margir eftirminnilegir úr þessum hópi en best man ég eftir Þorsteini Eyjólfssyni, Ellert Jóhanni Eiríkssyni, Páli Eyjólfssyni og Heimi Guðbjartssyni en þeir urðu allir skipstjórar. 
Eftir að skólagöngunni lauk var ég fyrst stýrimaður og skipstjóri á ýmsum togskipum, ma. Ársæli Sigurðsyni, Haferni og Óskari Halldórssyni. Eftir að skuttogaranum Júní var breytt í frystiskip í Danmörku undir nafninu Venus árið1986 var ég stýrimaður þar til að Venus brann við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn árið1994. Skipið var svo lengt og endurbyggt í Póllandi. Í millitíðinnivar ég á skuttogaranum Sigli í tvö ár sem stýrimaður og skipstjóri. Árið 1996 fór ég svo aftur á Venus eftir breytingarnar sem stýrimaður og skipstjóri.”

Á togbátum og togurum

Á Venusi, sem Hvalur hf. gerði þá út og síðar HB Grandi, var Halli skipstjóri á móti Guðmundi Jónssyni heitnum. Venus var seldur úr landi árið 2013 og síðan þá hefur Halli verið skipstjóri á Höfrungi III AK sem gerður er út af Brimi

,,Ég hef, alla mína sjómannstíð, verið á togbátum og togurum. Þetta eru að verða 50 ár og síðustu 35 árin hef ég verið á frystitogurum. Á þessum 50 árum hefur ýmislegt breyst enda er þetta langur tími á sjó. Mikil þróun hefur verið í fiskleitartækni. Aðbúnaður, vinnuaðstaða og öryggismál koma einnig upp í hugann, varðandi breytingar á þesssum tíma. Nú þykir sjáfsagt að um borð sé hægt að fara í ræktina og vera á netinu ef því ber að skipta. Einnig eru mörg skip í dag búinn andveltitönkum sem fer betur með mannskapinn. Mér finnst ekki hafa verið nógu hröð þróun í endurnýjun á frystitogaraflotanum. Flestir frystitogararnir eru gamlir ísfisktogarar sem hafa verið endurbyggðir fyrir frystingu. Þeir eru flestir frá um 1985 og margir eru úr sér gengnir,” segir Haraldur en um Sjómannadaginn hefur hann þetta að segja.

,,Í mínum huga hefur Sjómannadagurinn verið ma. til að efla samstöðu sjómanna. Þeirra tækifæri til að koma saman með fjölskyldunni, skemmta sér og hafa gaman. Vægi sjómannadagsins hefur sjálfsagt breyst í samræmi við fækkun skipa og útgerða á hinum og þessum stöðum. Það er a.m.k. raunin hér í Hafnarfirði. Annað hefur komið í staðinn,” segir Haraldur Árnason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir