FréttirSkrá á póstlista

26.05.2021

Góður afli í Víkurálnum

,,Við vorum allan tímann í Víkurálnun utan hvað við tókum síðasta holið í Nesdýpinu. Alls vorum við um fjóra sólarhringa að veiðum, með keyrslum, og aflinn var um 145 tonn. Við tókum það sem við vorum beðnir að ná í fyrir vinnsluna og það gekk vel fyrir sig,” segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK.

Leifur segir að afli sé enn góður á SV svæðinu en þar sé svo mikill gullkarfi að skipin verði að leita annað. Kvótinn sjái til þess.

,,Ástand helstu botnfiskstofna virðist vera með miklum ágætum. Við sækjum helst í ufsa, þorsk og gullkarfa þessa dagana og aflinn er skammtaður fyrir vinnsluna og þess gætt að ekki gangi of hratt á kvótana. Ég verð að taka heilshugar undir þær fullyrðingar að ýsugengdin í vor og það sem af er sumri er með hreinum ólíkindum. Hitt er verra að enginn virðist vita hvaðan allur þessi fiskur kemur.”

Helga María fer út að nýju frá Reykjavík fyrir miðnætti og markmiðið er að ná tveimur veiðiferðum fyrir Sjómannadaginn. Eftir hann hefjast eiginlegar sumarveiðar og Leifur segir að ekki kæmi á óvart þótt ísfisktogarar Brims yrðu talsverðan tíma í sumar fyrir norðan land og myndu landa afla á Sauðárkróki líkt og sl. sumur. Kosturinn við að vera að veiðum fyrir norðan væri sá helstur að þar væri lítið um aukaafla með þorskinum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir