FréttirSkrá á póstlista

09.04.2021

Góð ufsa- og djúpkarfaveiði

Frystitogarinn Vigri RE er kominn á miðin að nýju eftir að hafa komið með afla til Reykjavíkur um miðja vikuna. Heildaraflinn í veiðiferðinni var tæp 1.100 tonn af fiski upp úr sjó en hluta aflans var millilandað í Reykjavík um miðbik túrins.

Að sögn Árna Gunnólfssonar skipstjóra var aflinn aðallega ufsi og djúpkarfi.

,,Við byrjuðum á Eldeyjarbankanum og þar á hrauninu gekk mjög vel að veiða ufsa. Síðan fórum við út í Skerjadjúpið. Þar var ágæt djúpkarfaveiði og svo kom hálfur annar sólarhringur með mjög góðri djúpkarfaveiði,” segir Árni en úr Skerjadjúpinu lá leiðin á Litlabanka, Pínulitlabanka og loks á Matthildi.

,,Það var alls staðar veiði og okkur gekk sérlega vel að veiða djúpkarfannn á Matthildi,” segir Árni en hann kveður þennan veiðistað vera suðvestur af Melsekk og Fjöllunum.

Árni segir að erfiðasta verkefnið nú sé að forðst tegundir eins og ýsu sem sé alls staðar. Þá sé gríðarlegt magn af gullkarfa á ferðinni og þótt kvótastaðan þar sé mun rýmri en í ýsunni þá ráði markaðir því hvað vænlegt sé að veiða hverju sinni.

,,Það er kominn sá tími ársins að alls kyns lokanir fara að líta dagsins ljós hér syðra en á móti kemur að veiðin á Vestfjarðamiðum ætti að fara að glæðast,” sagði Árni Gunnólfsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir