FréttirSkrá á póstlista

08.02.2021

Urðum lítið varir við ufsann

,,Það var svotil stöðug ótíð allan túrinn og veðrið gerði okkur erfitt fyrir. Þó fengum við góðan afla inn á milli en ufsinn, sem við vorum aðallega að leita að, var vandfundinn jafnt hér syðra sem og á Vestfjarðamiðum.”

Þetta sagði Friðrik Ingason, skipstjóri á Höfrungi III AK, en skipið átti þá nokkrar mílur ófarnar til Reykjavíkur. Olíutaka var fyrirhuguð klukkan 14 og svo verður byrjað að landa frystum afurðum kl. sex í fyrramálið.

,,Við fórum ekki úr höfn fyrr en um miðjan janúar og byrjuðum túrinn á að reyna fyrir okkur í Víkurálnum. Þaðan fórum við út á Hampiðjutorgið en þar var þorskur og eitthvað af grálúðu. Við fórum svo lengra norður og austur. Á Halanum og á Deildargrunni var nánast bara ýsa. Það var aðeins byrjað að sjást vottur af þorski á Halanum en ufsinn fannst hvergi. Á meðan við vorum á Vestfjarðamiðum bárust fréttir um ufsaskot á Reykjanesgrunni og Tánni og við héldum því suður,” segir Friðrik en hann segir að því miður hafi ufsaveiðin verið búin þegar Höfrungur III kom á svæðið.

,,Við héldum okkur þó á þessum slóðum auk þess sem við reyndum við djúpkarfa í Skerjadjúpi. Heildaraflinn í veiðiferðinni er tæp 650 tonn og það er ekki svo slæmt þegar fyrirhöfnin er skoðuð,” segir Friðrik Ingason.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir