FréttirSkrá á póstlista

22.12.2020

Skást í Skerjadjúpinu – þokkalegt fyrir austan

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú á leið til Reykjavíkur eftir tiltölulega stutta veiðiferð, 19 daga á sjó. Að sögn Þórs Þórarinssonar, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, er aflinn um 560 tonn upp úr sjó.

,,Við byrjuðum í Skerjadjúpinu og þar var alveg þokkalegur afli til að byrja með. Svo komu þangað skip, sem annars hefðu verið á Vestfjarðamiðum, og við aukið álag á slóðinni, hvarf djúpkarfinn og það var því ekkert að gera nema reyna fyrir sér á öðrum miðum,” segir Þór en í máli hans kemur fram að óhætt sé að segja að Vestfjarðamið hafi verið lokuð vegna óveðurs undanfarinn hálfan mánuð.

,,Við fórum því í blíðuna fyrir austan og höfum mest verið að veiðum á Fætinum og í Litla-Djúpi. Þarna var þokkalegt þorsknudd og svo fengum við aðeins ýsu í lokin.”

Að sögn Þórs var skipið ekki marga daga fyrir austan og hann reiknar með að vera kominn til hafnar í Reykjavík um kl 23 í kvöld.

,,Það verður gott að ná heilum Þorláksmessudegi í landi áður en jólahátíðin gengur í garð,” segir Þór Þórarinsson.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir