FréttirSkrá á póstlista

17.12.2020

Þrálát ótíð torveldar veiðar

Ísfisktogarinn Viðey RE kom til hafnar í Reykjavík í morgun með um 120 tonna afla. Skipið var að veiðum úti fyrir NV-landi og á Vestfjarðamiðum en þrálát ótíð hefur torveldað veiðar á þessum slóðum í lengri tíma.

,,Við byrjuðum úti fyrir NV-landi. Það var þorskur á Strandagrunni en vitlaust veður. Þegar aflinn minnkaði fórum við vestur eftir og hættum ekki veiðum fyrr en austan við Víkurálinn. Við fengum svo til eingöngu þorsk en það er mjög erfitt að meta ástandið þegar það er óveður dag eftir dag. Það væri of mikið sagt að það hafi dúrað á milli veðra. Nær væri að segja að vindurinn hafi linast aðeins á milli þess að það versta reið yfir,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á Viðey.

Að sögn Ella var ógjörningur að stunda tveggja trolla veiðar vegna veðurs.

,,Við áttum fullt í fangi með eitt troll og það hefði ekki verið hægt að stunda veiðarnar nema vegna þess hve skipið er öflugt. Við vorum lengst af einir á slóðinni en önnur skip voru mun grynnnra og nær landi.”

Viðey stoppar ekki lengi í Reykjavík því farið verður aftur út í kvöld. Skipið á svo að koma til hafnar á Þorláksmessu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir