FréttirSkrá á póstlista

30.11.2020

Lítill kraftur í kolmunnaveiðum

Uppsjávarveiðiskipið Víkingur AK kom til hafnar í Vopnafirði snemma í morgun með rúmlega 1.600 tonn af kolmunna sem fengust austan við Færeyjar. Skömmu áður var Venus NS á ferðinni með um 2.600 tonn af kolmunna.

,,Þessi veiðiferð var nokkuð löng hjá okkur eða um tvær vikur. Mér reiknast til að um fjórir dagar hafi alveg dottið út hjá okkur vegna þess hve veðrið var slæmt. Það var búin að vera veiði áður en við komum á miðin en eftir það var aflinn upp og ofan,” segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi.

Yfirleitt var togað í um 20 tíma samfleytt og segir Albert að undir lokin hafi aflinn farið niður í 20 tonn. Besta holið skilaði hins vegar 350 tonnum.

,,Kolmunninn er á suðurleið en sá fiskur sem við vorum að veiða er af millistærð og virðist vera meira staðbundinn en stóri göngufiskurinn. Það er gert töluvert til að vernda smæsta fiskinn og á meðan túrnum stóð þá var einum fjórum eða fimm svæðum lokað vegna smáfisks í afla skipanna.”

Að sögn Alberts hefur kolmunnans verið leitað víða austan Færeyja en minna hefur farið fyrir veiðum vestan eyjanna.

,,Það eru þó ein þrjú færeysk skip að veiðum í kantinum á Færeyjabanka og það hefur verið eitthvað nudd hjá þeim,” sagði Albert Sveinsson en hann segir að farið verði beint aftur á miðin þegar löndun lýkur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir