FréttirSkrá á póstlista

24.11.2020

Þokkalegur afli í erfiðum aðstæðum

,,Ég er nokkuð ánægður með túrinn. Aflinn er um 130 tonn en aðstæður voru mjög erfiðar vegna veðurs,” segir Magnús Kristjánsson, skipstjóri á ísfisktoganum Akurey, en skipið kom til hafnar í Reykjavík í morgun.

Að sögn Magnúsar var farið austur á Þverálshorn í leit að þorski en annars var skipið að veiðum í kantinum vestan við Halann auk þess sem skipverjar reyndu lítillega fyrir sér í Víkurálnum.

,,Það hafði verið þorskur á Þverálshorninu en sú veiði var að tregast um það leyti er við komum á svæðið. Í kantinum var þorskur og ufsi en það var einnig að draga úr þeirri veiði. Í Víkurálnum var mjög mikið af gullkarfa og við fengum um 35 tonn af gullkarfa án þess að hafa svo mikið fyrir því,” segir Magnús.

Að því er fram kemur hjá Magnúsi var yfirleitt hægt að toga með teimur trollum samtímis, þ.e.a.s. ef hægt var að koma út veiðarfærum á annað borð.

,,Það var ákafleg kaflaskipt veður í túrnum. Þetta var svona klippt og skorið. Annað hvort var gott veður og veiðin var vandalaus eða þá að það var fárviðri og ekkert veiðiveður. Það má segja að veðrið hafi verið í ökkla eða eyra,” segir Magnús.

Nokkur reynsla er komin á tveggja trolla veiðar Akureyjar og segir Magnús Kristjánsson að aflaaukningin sé ótvíræð. Þetta eigi ekki síst við um sé afli tregur. Sé afli góður sé aflaaukningin einnig vel merkjanleg.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir