FréttirSkrá á póstlista

13.11.2020

Fengu 130 tonn af þorski á tveimur sólarhringum

Ísfisktogarinn Viðey RE er nú að veiðum á utanverðu Strandagrunni og segir skipstjórinn, Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), að aflabrögðin lofi góðu þrátt fyrir leiðinda veður. Skipið var einnig á Strandagrunni í síðasta túr og þá fengust um 130 tonn af þorski á aðeins tveimur sólarhringum.

,,Það er búin að vera ótíð hérna síðustu dagana en veðrið var ágætt þá daga sem við vorum að veiðum í síðasta túr,” segir Elli.

Svo sem kunnugt er var búnaður settur í skipið í sumar sem leið í því skyni að hægt sé að toga með tveimur trollum samtímis. Áður hafði sams konar breyting verið gerð á Akurey AK. Hægt var að beita þeirri aðferð í síðasta túr en Elli segir að meta þurfi það hverju sinni út af veðri hvort togað sé með einu eða tveimur tollum.

,,Sjólag er eitt og vindstyrkur er annað. Þá verður að skoðast hvernig ætlunin er að toga með tilliti til strauma og þess sem áður hefur verið nefnt. Stundum er bara ekki verjandi að nota tvö troll samtímis.”

Að sögn Ella er lítill sem enginn aukaafli með þorskinum á Strandagrunni. Nokkrir togarar eru á veiðisvæðinu og enn aðrir eru vestar og að veiðum í Þverál. Ekki hefur orðið vart við loðnu í þorskinum á Strandagrunni.

,,Við sáum loðnu í þorskinum vestur í kanti á dögunum en það er eins og þorskurinn hér sé að leita að loðnu, líkt og fleiri,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson eða Elli eins og hann er alltaf nefndur.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir