FréttirSkrá á póstlista

09.11.2020

Gott þorskskot í Þverálnum

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú á leið til Reykjavíkur með um 120 til 125 tonna afla eftir rétt rúma þrjá sólarhringa á veiðum. Skipstjórinn, Heimir Guðbjörnsson, segir miklu muna að skipið hafi lent í besta þorskskoti haustsins og vetrarbyrjunarinnar í Þverálnum um helgina.

,,Við fórum frá Reykjavík laust fyrir miðnætti á fimmtudag. Veiðar hófum við í kantinum úti fyrir Vestfjörðum norður af Víkurálnum og unnum okkur norður að Halamiðum. Í kantinum var þokkaleg þorsk- og ufsaveiði og svo fengum við karfa á meðan birtu gætti,” segir Heimir.

Rólegt hefur verið yfiir veiðum á Halanum síðustu vikur og Heimir segir að þess vegna hafi hann ákveðið að fara beint í Þverálinn og það átti eftir að borga sig.

,,Við vorum komnir austur í Þverál seint á föstudagskvöld og lentum strax í góðri veiði. Aflinn var aðallega þorskur en einnig ýsa og smávegis af karfa. Þetta var besta þorskskot á Vestfjarðamiðum í lengri tíma og mér skilst að veiðin sé enn góð í Þverálnum og á Strandagrunni,” segir Heimir en hann telur nokkuð ljóst að göngur loðnu ráði ferðum bolfisksins.

,,Það var mikið af velmeltri loðnu í fisknum sem við fengum í kantinum og Þverálnum og ljóst er að hann hefur nægilegt æti,” segir Heimir Guðbjörnsson.

Nú er kominn sá árstími að allra veðra er von. Helga María hreppti hauabrælu fyrsta sólarhring veiðiferðarinnar en veður var skaplegt eftir það.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir