FréttirSkrá á póstlista

09.10.2020

Stuttri en snarpri síldarvertíð lokið

Uppsjávarveiðiskip Brims, Venus NS og Víkingur AK, eru hætt veiðum á norsk-íslenskri síld og eru bæði skipin komin til Reykjavíkur, tilbúin til að takast á við næsta verkefni. Hvort það verða veiðar á íslenskri sumargotssíld eða kolmunnaveiðar á eftir að koma í ljós.

Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi, segir að veiðarnar á norsk-íslensku síldinni hafi verið stuttar en snarpar.

,,Veiðarnar gengu mjög vel og það var mikið af síld á ferðinni. Það voru ekki nema 60 til 80 mílur á miðin frá Vopnafirði. Veðrið var gott og síldin mjög væn og segja má að vinnslan hafi ráðið hraða veiðanna. Við fórum alls í þrjár veiðiferðir og í þeirri síðustu var aflinn 1.500 tonn í fjórum stuttum holum. Síldin var mjög góð eða frá 380 grömmum upp í 420 grömm stykkið,” segir Bergur.

Óvíst er hvaða verkefni tekur við hjá uppsjárveiðiskipunum. Veiðar á íslensku sumargotssíldinni hefjast vart fyrr en í nóvember. 

,,Ég veit ekki hvað verður en kolmunnaveiðar gætu komið til greina,” segir Bergur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir