FréttirSkrá á póstlista

07.10.2020

Lítið að hafa á Vestfjarðamiðum

,,Þetta var ósköp dapurt þótt túrinn sem slíkur hafi sloppið fyrir horn. Veiðin byrjaði vel en síðan datt allur botn úr henni. Það er því lítið að hafa á Vestfjarðamiðum núna og við verðum því að leita fyrir okkur annars staðar,” segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK.

Lokið var við að landa afla úr togaranum á Sauðárkróki í morgun og var Leifur á leiðinni á Austfjarðamið með skipið er rætt var við hann. Leifur segir að í síðasta túr hafi markmiðið verið að veiða þorsk en hann virðist vera af skornum skammti á Halanum og í næsta nágrenni.

,,Það var reyndar einhver ufsaveiði á Halanum en við reyndum bara við þorsk. Við reyndum einnig fyrir okkur á Þverálshorninu en þar var sömuleiðis lítið að hafa. Við urðum lítið var við loðnu en þó var aðeins loðnuvott að sjá ánetjaðan í stöku holum.”

Að sögn Leifs hefur veiði fyrir Norðurlandi verið gloppótt undanfarnar vikur. Af og til verði vart aukna fiskgengd en þessi stöku skot séu fljót að fjara út.

,,Nú berast af því fréttir að þokkaleg veiði hafi verið fyrir austan síðustu fjóra til fimm daga og við ætlum því að láta reyna á það hvort hún haldist. Veiðin hefur verið í Seyðisfjarðardjúpi en hún hefur nú færst suður á bóginn,” segir Friðleifur Einarsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir