FréttirSkrá á póstlista

30.09.2020

Lofar sannarlega góðu

,,Það er sama og engin reysla komin á þessa breytingu. Næstu túrar fara í að prófa sig áfram. Ég tel þó ljóst að breytingin, sem smellpassar í skipið, lofi þó svo sannarlega góðu,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE en skipið kom til hafnar í Reykjavík í morgun. Þetta var fyrsta eiginlega veiðiferð Viðeyjar eftir að þriðju togvindunni var bætt við en það gerir Ella og hans mönnum kleift að toga með tveimur trollum samtímis.

Afli Viðeyjar að þessu sinni var um 180 tonn eftir fimm daga á veiðum.

,,Við vorum á Halanum og í Víkurálnum. Á Halanum var þorskur og ufsi en á þessum árstíma verður mest vart við gullkarfa í Víkurálnum. Við vorum lengst af með tvö troll en við hrepptum hins vegar vont veður í Víkurálnum, sem stóð í sólarhring, og það varð þess valdandi að við urðum að nota eitt troll,” segir Elli en þess má geta að nýju trollin tvö eru svokölluð Jaggertroll frá Hampiðjunni en þau byggja á svipaðri útfærslu og hin þekktu Bacalaotroll sem Elli og hans menn hafa mjög góða reynslu af.

,,Við verðum að nota næstu túra til að prófa okkur áfram. Trollin reyndust vel og ég tel það mikinn kost að nýja togvindan sé frá Naust Marine eins og allt vindukerfið.  Ef spurningar vakna er auðvelt að ná í menn og fá svör. Nú er þó aðkallandi að komast að því hve veðrið má vera slæmt til að ekki sé verjandi að vera með tvö troll samtímis. Það er kominn sá árstími að það er allra veðra von. Það er varla hægt að tala um stórviðri nú í haust en þau munu koma. Eitt er þó alveg ljóst að veturinn í vetur getur ekki orðið jafn slæmur og síðasti vetur. Ég neita einfaldlega að trúa því,” sagði Elli skipstjóri á Viðey.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir