FréttirSkrá á póstlista

29.09.2020

Örfirisey RE farin í slipp

Frystitogarinn Örfirisey RE kom til Reykjavíkur í gærmorgun eftir  hefðbundna veiðiferð. Aflinn var rúmlega 1.000 tonn ef miðað er við fisk upp úr sjó. Hlé verður nú gert á veiðum skipsins því það er komið í slipp þar sem verður næsta mánuðinn.

,,Það má segja að þetta hafi verið þokkalegt nudd hjá okkur,” segir Þór Þórarinsson sem var skipstjóri í veiðiferðinni.

Að sögn Þórs var fyrst farið í Skerjadjúpið með það að markmiði að veiða sem mest af djúpkarfa.

,,Það er hins vegar frekar lítið um djúpkarfa á þessum árstíma og því fórum við næst norður á Vestfjarðamið. Það var lítið um þorsk á Halanum og því fórum við í Þverálinn. Þar gekk okkur mun betur að eiga við þorskinn.”

Þór segir að afla hafi verið millilandað í Reykjavík þann 11. september sl. og síðan hafi aftur verið farið í Skerjadjúpið.

,,Aflinn þar var ekki mjög mikill en við létum okkur hafa það og í heildina erum við sæmilega sáttir,” segir Þór Þórarinsson.

Örfirisey er nú komin í slipp og framundan er vélarupptekt, málun og hefðbundið viðhald. Ætlað er að slipptakan taki um einn mánuð.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir