FréttirSkrá á póstlista

21.09.2020

Samkeppni virk og lítil samþjöppun í sjávarútvegi

Athugun sem byggir á alþjóðlegum aðferðum við mat á samkeppni sýnir virka samkeppni í íslenskum sjávarútvegi og litla samþjöppun

Samkeppni er virk og samþjöppun lítil á öllum mörkuðum sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfa á, bæði innanlands og utan, samkvæmt faglegri athugun Arev verðbréfafyrirtækisins ehf. sem sjávarútvegfyrirtækið Brim hf. óskaði eftir. Styðst fyrirtækið við alþjóðlegar og viðurkenndar aðferðir við mat á virkri samkeppni á mörkuðum. Til samanburðar er samkeppni á matvörumarkaði og bankamarkaði á Íslandi mun minni en þar er samþjöppun mjög mikil og hefur aukist hin allra síðustu ár sem ekki hefur orðið raunin í sjávarútvegi.

Þeir markaðir sjávarútvegs sem athugun Arev náði til voru heildarhlutdeild aflamarks árið 2019 og aflahlutdeild einstakra fisktegunda sama ár og síðan afurðir á neytendamarkaði bæði heima og alþjóðlega, einnig markaðir fyrir aðföng eins og olíu og viðhaldsþjónustu og síðast en ekki síst var skoðuð samkeppnin á vinnumarkaði.

Aðferðirnar sem stuðst er við er mæling á svokölluðum HHI stuðli (Herfindahl-Hirschman Index) sem er þekkt aðferð við að kanna samþjöppun í safni. Hlutdeild hvers þátttakanda er margfölduð með sjálfri sér og þá segir summan til um samþjöppun. Þá verður summan hærri eftir því sem aðilar eru færri og með stærri hlutdeild, (- sjá nánar https://www.investopedia.com/terms/h/hhi.asp ). Þá er einnig hægt að styðjast við svokölluð CR hlutföll en þá er skoðuð hlutdeild þeirra stærstu eins og CR4 eða CR8 eftir því sem við á. Meginniðurstaða þessara athugana og útreikninga er að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfa á virkum samkeppnismarkaði þar sem samþjöppun er lítil.

 

Einnig voru reiknuð CR hlutföll fyrir átta stærstu aðilana á markaði (CR8) fyrir einstaka fisktegundir líkt og Fiskistofa gerði árið 2010. Niðurstöður eru á sömu leið að markaður er virkur og samþjöppun lítil og þær breytingar sem verið hafa á yfirráðum yfir aflahlutdeildum breyta litlu þar um. Með greiningum á þáttum sem áhrif hafa á verð aflaheimilda einstakra tegunda kemur í ljós að gengi gjaldmiðilsins hefur langmest áhrif þar sem veik staða hans skilar fleiri krónum heim til Íslands. Sá þáttur sem hefur næst mest áhrif er hversu stutt er eftir af fiskveiðiári og hversu mikið eftir er af óveiddum fiskveiðiheimildum. Þriðji þátturinn sem hefur áhrif er verð á olíu á fiskiskipin. Þessar niðurstöður undirstrika enn frekar að samkeppni á markaðinum er virk og verð á markaði ræðst af eðlilegum rekstrarþáttum.

Meðfylgjandi er skýrsla um athugunina sem Arev verðbréf vann fyrir Brim hf. þar sem staða þess félags er einnig metin sérstaklega.

 


Nýjustu fréttir

Allar fréttir