FréttirSkrá á póstlista

27.08.2020

Akurey AK hefur verið fyrir norðan land í sumar

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til Sauðárkróks í morgun en togarinn var í gær að veiðum djúpt á Strandagrunni. Akurey hefur verið að veiðum á Norðurlandsmiðum lengst af sumri og hefur aflanum verið landað á Sauðárkróki og ekið suður til vinnslu.

,,Það er búinn að vera fínn þorskafli sl. tvo daga. Fljótt flýgur fiskisagan og nú eru ein 12 skip komin á svæðið. Aflinn er mjög góður þorskur, þrjú til fjögur kíló að jafnaði, og þó við höfum ekki verið lengi á miðunum þá er stefnan sett á að landa um 200 körum eða 60 til 65 tonnum af fiski upp úr sjó,” segir Jón Frímann Eiríksson sem nú er með skipið. Hann segist vonast til að löndun taki aðeins um fjóra tíma en þá verður haldið rakleiðis á miðin að nýju.

Það vakti athygli fyrr í sumar er þriðju togvindunni var bætt við í Akurey en það vart gert til að hægt væri að toga með tveimur trollum samtímis. Jón Frímann segir reynsluna góða fram að þessu.

,,Það þarf vissulega að vera fiskur undir hvort sem trollin eru eitt eða tvö en þessi breyting hefur, að mínu mati, skilað árangri nú þegar,” segir Jón Frímann Eiríksson.

Það er mat Eiríks Jónssonar, skipstjóra á Akurey, sem er í leyfi milli veiðiferða, að sumarið hafi verið gott.

,,Við fórum eina veiðiferð á Halann á Vestfjarðamiðum og fengum alveg ágætan afla. Svo brældi og fiskurinn hvarf af miðunum. Þess vegna höfum við haldið okkur á Norðurlandsmiðum, Það var ágætan afla að hafa á Kolbeinseyjarsvæðinu en svo dalaði aflinn. Nú hafa skipin færst vestar og mér skilst að afli sé góður. Akurey landar á Króknum á morgun og það verður sennilega sjöunda löndunin þar í sumar. Við höfum landað einu sinni í Reykjavík í sumar en annars haldið okkur við Krókinn,” sagði Eiríkur Jónsson er rætt var við hann í gær.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir