FréttirSkrá á póstlista

19.08.2020

Góð ufsaveiði víða

Frystogarinn Vigri RE er nú kominn á Vestfjarðamið en landað var úr skipinu í Reykjavík sl. sunnudag og mánudag. Skipstjórinn, Eyþór Atli Scott, segir aflann hafa verið um 1.070 tonn af fiski upp úr sjó en það sé fullfermi miðað við það magn af karfa- og þorskhausum sem komið er með að landi.

,,Vigri var í rússneskum sjó í júní og júlí og aflabrögðin voru mjög góð. Ég tók við skipinu þegar það kom heim og fyrsti túrinn eftir Barentshafið var farinn 19. júlí sl. Við byrjuðum á Fjöllunum og fórum á Taglið og fleiri staði. Markmiðið var að veiða ufsa. Það var nóg af ufsa en alls staðar var svo mikið af gullkarfa að við urðum frá að hverfa,” segir Eyþór Atli.

Frá Fjöllunum lá leiðin norður á Látragrunn þar sem Eyþór Atli segir að ýsuskammturinn hafi verið tekinn.

,,Við fórum svo kantinn norður á Hala. Þar var ágæt ufsaveiði og við fengum dálítið af þorski með. Síðan brældi mjög hressilega á Halanum þannig að við fórum austur í Reykjafjarðarál og svo á Strandagrunn. Þar fengum við góða þorskveiði og þegar veðrið gekk niður fórum við aftur á Halann. Ufsaveiðin brást ekki og við fengum ufsa allt austur á Þverálshorn,” segir Eyþór Atli en hann segir að svo hafi aftur brælt á Halamiðum.

,,Veiðiferðin endaði því þar sem hún hófst, á Fjöllunum og einnig var farið í Skerjadjúp. Við fengum góðan ufsaafla og fórum í land þegar fullfermi var náð,” segir Eyþór Atli Scott.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir